Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:35:14 (5889)

1997-05-06 14:35:14# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:35]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem mál mitt hefur fengið hjá þingmönnum. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir ágæta ræðu sem hann flutti um þá sérfræðiþekkingu sem þarna er um að ræða sem skiptir mjög miklu máli að verja því að ef verksmiðjunni verður lokað, sem hætta er á annars, hverfur sú sérfræðiþekking í Áburðarverksmiðjunni sem í raun er framtíðartilvísun. Og það er alveg rétt hjá hv. þm. að vetnissjónarhornið skiptir mjög miklu máli.

Ég vil líka þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni, sem er formaður landbn. eins og alþjóð veit, fyrir undirtektir hans undir málflutning minn í þessu máli. Mér finnst það sem hann og fleiri sögðu benda til þess að í rauninni geti verið réttlætanlegt að beita stjórnvaldsaðgerðum um 5--10 ára skeið til að halda verksmiðjunni gangandi jafnvel þó að það kunni að virðast tæpt út frá þrengstu markaðssjónarmiðum séð. Það er það í raun og veru sem ég er að hvetja til, þ.e. að ríkið, borgin, Landsvirkjun og aðrir aðilar komi sér jafnvel saman um að grípa til sérstakra aðgerða til að tryggja að verksmiðjan geti verið til sem áburðarverksmiðja, sem vetnisframleiðandi og undirbúningsaðili að stórátaki í vetnisframleiðslu og jafnframt sem vinnustaður þar sem væru líka hjálpargreinar, eins og peroxíðframleiðsla, sem reyndar Reykjavíkurborg hefur haft forustu um. Reyndar hefur atvinnumálanefnd Reykjavíkur nú þegar beitt sér fyrir að stofnað hefur verið undirbúningsfélag til að hefja peroxíðvinnslu í Áburðarverksmiðjunni. Allt lítur þetta þannig út að mér sýnist að hægt verði að ljúka umræðunni, a.m.k. af minni hálfu, með því að þakka fyrir og hvetja hæstv. landbrh. til að halda þétt utan um þessi mál. Í þessari stofnun hefur hann stuðning til að loka ekki Áburðarverksmiðjunni.