Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 15:22:43 (5894)

1997-05-06 15:22:43# 121. lþ. 117.4 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því til að fyrirbyggja misskilning að ég er síður en svo að gera lítið úr 3. umr. um mál og vil ekki að orð mín áðan verði skilin þannig. Þar að auki hafði ég ekki hugmynd um að hv. þm. hefði ekki tekið til máls við 2. umr. Ég velti því aðeins upp áðan hvort þessar athugasemdir hans, sem eru auðvitað þýðingarmiklar, hafi ekki komið fram þá. Hann hefur nú upplýst að fyrir því hafi verið sérstakar ástæður sem ekkert er við að segja. Og til þess að þetta sé nú alveg skýrt af minni hálfu þá er auðvitað 3. umr. mikilvæg líka, en við 2. umr. þurfa helst að koma fram ekki síst athugasemdir sem geta varðað efnistök nefnda á málinu þannig að nefndirnar geti á milli umræðna farið yfir athugasemdirnar og fjallað um hvort ástæða er til eða þörf á að gera frekari breytingar þannig að þær liggi fyrir við 3. umr. strax. En það tekur auðvitað ekki nokkurn rétt af þingmönnum að leggja til breytingar við 3. umr. Ég vildi að þetta sjónarmið væri alveg skýrt.

Ég verð að segja við hv. þm. varðandi 14. gr. og þær breytingar sem þar hafa verið gerðar að hér hafa menn sett sér alveg ákveðna viðmiðun: Greiðslan skal miðast að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu. Það hefur verið ákveðið að hverfa frá því að brunabótamatið væri miðmiðun eða endurstofnverð af þeim ástæðum að höfundar frv. og síðan ríkisstjórnin, sem hefur gert þetta að sínu máli, hafa álitið að þetta væri eðlilegri eða meiri jafnræðisaðferð við uppgjör á húseignum í þessu tilviki en hinar sem áður voru nefndar og það sjálfsagt að einhverju leyti að fenginni reynslu að undanförnu þar sem á þetta hefur reynt. Ef svo stæði á að erfitt væri, sem ég held að hljóti að vera hægt með matsaðferðum, að finna eða áætla staðgreiðslumarkaðsverð, ef það er að einhverju leyti óljóst vegna þess að lítil eignaskipti hafi átt sér stað eða að einhverju leyti erfitt að finna staðgreiðslumarkaðsverðið, þá verði menn að viðhafa reikningsaðferðir við að finna slíkt út. Ég gef mér að það geti ekki verið svo flókið en ég hef ekki aðra skýringu á þessu, hæstv. forseti, en þá sem ég hef reynt að gera grein fyrir hér, að höfundar hafi talið að þetta væri eðlileg og fullnægjandi aðferð við uppgjör ef til þess þarf að koma.

Varðandi hinn þáttinn um sérstakar aðgerðir þar sem snjóflóð hafa þegar fallið án þess að valda mannskaða en e.t.v. leitt til tjóns á fasteignum, þá er, eins og ég sagði áðan það eitthvað sem getur út af fyrir sig komið upp, því miður. Það getur líka gerst á þeim stöðum þar sem flóð hafa fallið áður og við höfum þó sett í ákveðna forgangsröð að byggja upp. Við höfum núna sett fram ákveðna hugmynd um hvernig staðið verði að byggingu varnarvirkja á næstu árum. Á meðan það mál var í vinnslu hafa reyndar komið upp tilvik sem þótti ástæða til að taka til sérstakrar skoðunar og voru reyndar gerðar breytingar á fyrri hugmyndum í ljósi þess. Ég hygg því að ef eitthvað slíkt kemur upp sé reynt að taka tillit til þess. En við hljótum að verða að setja okkur einhverja áætlun sem við byggjum á og miðum við að fara í þessar kostnaðarsömu og tímafreku aðgerðir sem uppbygging þessara varnarvirkja hlýtur að verða á næstu árum. Það verður þess vegna að hafa einhverja meginreglu í því þó svo að upp kunni að koma einhver tilvik sem breyta því, því að ekkert er umbreytanlegt í þessu. Þetta er aðeins vinnuáætlun og hugmynd um forgangsröð en ekkert sem er þannig bundið að ekki sé umbreytanlegt. En ef einn staður er tekinn fram yfir annan af einhverjum slíkum ástæðum eru meiri líkur á því að einhver annar sitji á hakanum eða færist aftar í röðinni því að þetta eru gríðarlega kostnaðarsamar framkvæmdir í heildina eins og ég hef áður nefnt.

Ég hef því miður ekki við þetta að bæta, hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort þetta hefur að nokkru leitt til þess að hv. þm. geti sæst á það að umræðan haldi áfram eða ljúki, en ég set það að öðru leyti í vald forseta, ég ræð ekki neinu um það mál. Það hlýtur að verða hans mat.