Öryggisþjónusta

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 15:54:32 (5902)

1997-05-06 15:54:32# 121. lþ. 117.10 fundur 486. mál: #A öryggisþjónusta# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[15:54]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju með frv. til laga um öryggisþjónustu sem hér er til umræðu og tel það mjög þarfa löggjöf. Engu að síður flyt ég hér ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur brtt. við frv. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert ágætlega grein fyrir og ég ætla ekki að endurtaka heldur einvörðungu hafa hér fáein orð um.

Í fyrsta lagi hefur ekki verið löggjöf um öryggisfyrirtæki sem eru orðin nokkur starfandi hér á markaði og veita þjónustu á þessu sviði. Það er mjög brýnt að fá slíka löggjöf. Í 1. gr. frv. segir hvaða verkefnum slíkum fyrirtækjum er ætlað að sinna. Þótt frá því sé greint í nál. allshn. að ekki sé ætlunin að slík fyrirtæki fari inn á starfsvettvang opinberra aðila, lögreglu og slökkviliðs, þá er mikilvægt í ljósi áhuga núv. ríkisstjórnar á einkavæðingu á öllu sem einkavætt verður að skýrt sé kveðið á um þetta í lögum svo þetta orki ekki tvímælis. Þar er komin skýringin á fyrstu brtt. sem við setjum fram, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og ég, þar sem við leggjum til að við 1. gr. bætist ný málsgrein er orðist svo, með leyfi forseta:

,,Þess skal gætt að öryggisþjónusta í atvinnuskyni fari ekki inn á starfssvið opinberrar löggæslu og slökkviliðs.``

Eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat um teljum við mikilvægt að rekstraraðilum öryggisþjónustufyrirtækja verði gert skylt að hafa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi, sem hafi starfsleyfi hér á landi, sem tryggir viðskiptamönnum fyrirtækisins bætur ef þeir verða fyrir fjárhagstjóni sem fyrirtækið eða starfsmenn þess bera skaðabótaábyrgð á.

Einnig viljum við herða á skilyrðum sem gerð eru til starfsmanna slíkra öryggisfyrirtækja og sinna framkvæmd öryggisþjónustunnar og vísum þar til b-, c- og d-liðar 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um að starfsmenn skuli vera lögráða, hafa haft forræði á búi sínu síðustu tvö ár, hvorki hafa gerst sekir um brot á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni eða lögum um skotvopn, né verið dæmdir til refsivistar samkvæmt ákvæðum annarra laga, enda hafi brot ekki verið smávægilegt eða langt um liðið frá því að það var framið.

Um þetta urðu nokkrar umræður í allshn. Það kemur fram í áliti allshn. að þeim sem stýra þessum fyrirtækjum beri að fylgja því eftir að starfsmenn hafi óflekkað mannorð og valdi sínu starfi. En það kom jafnframt fram að það er mjög mikilvægt fyrir stjórnendur slíkra fyrirtækja að hafa lagastoð til að styðjast við þegar þeir t.d. ganga eftir sakavottorði við starfsmenn og annað af því tagi.

Þannig að allar eru þessar greinar brtt. okkar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til þess fallnar að gera ágætt frv. um öryggisþjónustu enn þá betra og við vonum að sjálfsögðu að brtt. nái fram að ganga en frv. í heild sinni mun ég styðja.