Öryggisþjónusta

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:00:15 (5903)

1997-05-06 16:00:15# 121. lþ. 117.10 fundur 486. mál: #A öryggisþjónusta# frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:00]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Allshn. ræddi þessi atriði sem kveðið er á um í þeim brtt. sem hv. þm. kynntu áðan. Þau atriði voru rædd í allshn. og er bent á flest þeirra í nál. eins og ég gerði grein fyrir áðan í framsögu með nál. og vísa ég til þess. Meiri hluti allshn. taldi ekki ástæðu til þess að breyta frv. á þennan hátt sem hér er mælt fyrir enda þótt tekið hafi verið undir ýmislegt af ábendingum í nefndinni, m.a. að æskilegt væri að settar yrðu reglur um ákveðin atriði. En það var einmitt bent á það atriði í nál. sem ég vil ítreka hér, með leyfi virðulegs forseta:

,,Telur nefndin ekki ástæðu til að setja frekari hæfniskröfur í lög en minnir á að strangar kröfur eru gerðar til þeirra sem starfrækja öryggisþjónustu og ætlast verður til að yfirmenn fylgi því eftir að starfsmenn hafi óflekkað mannorð og valdi starfinu.``

Þá vil ég einnig benda á það sem kemur fram í athugasemdum með frv. en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Við samningu frumvarpsins hefur verið litið til gildandi laga annars staðar á Norðurlöndum. Er lagt til að löggjöf hér á landi verði hagað með áþekkum hætti þannig að leyfi þurfi til að annast tiltekna öryggisþjónustu í atvinnuskyni. Með því að setja tiltekin skilyrði fyrir slíkri leyfisveitingu er unnt að fyrirbyggja að þeir sem augljóslega eru ekki fallnir til að veita viðunandi þjónustu hasli sér völl á þessu sviði. Er einnig gert ráð fyrir því að í reglugerð verði kveðið nánar á um framkvæmd þjónustunnar. Með þessu er leitast við að tryggja ákveðin gæði þeirrar þjónustu sem stendur til boða á þessum markaði.``

Virðulegi forseti. Ég vildi bara láta þessi atriði koma fram en að öðru leyti þakka ég hv. þm. fyrir stuðning þeirra við frv. og erum við sammála því að um þarft mál sé að ræða.