Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:28:03 (5912)

1997-05-06 16:28:03# 121. lþ. 117.15 fundur 554. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar# þál., Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:28]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Á þskj. 1079 er nál. utanrmn. að því er varðar þetta mál, þ.e. till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 1997.

Samningur þessi tekur til veiða á loðnu, kolmunna, makríl og síld úr öðrum stofnum en þeim norsk-íslenska. Samkvæmt þessum samningi verður Færeyingum heimilað að veiða 30 þúsund lestir af loðnu á Íslandsmiðum líkt og í fyrra en nú gefst þeim kostur á að nýta allar heimildirnar á vorvertíð. Í samningnum eru ákvæði um gagnkvæmar veiðar á kolmunna sem vonast er til að hvetji til veiða á tegundinni. Í samningnum er einnig heimild fyrir veiðar Íslendinga á 1.000 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en þeirri norsk-íslensku innan færeyskrar lögsögu.

Rétt er að minna á að Íslendingar og Færeyingar hafa gert fleiri samninga um fiskveiðar. Á haustþingi var staðfest samkomulag milli landanna frá því í desember um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Ákvæði eru um gagnkvæman rétt til veiða í efnahagslögsögu landanna.

Um heimildir Færeyinga til botnfiskveiða við Ísland fer eftir samningi landanna frá árinu 1976 og hefur verið ákveðið að þær nemi 5.000 lestum á yfirstandandi ári.

Í nál. því sem ég vitnaði til á þskj. 1079 er jafnframt yfirlit frá sjútvrn. um botnfiskveiðiheimildir Færeyinga á tímabilinu 1983--1996.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt og rita allir nefndarmenn undir álitið í máli þessu.

Ég vil að lokum undirstrika að í nefndinni er samstaða um að leggja áherslu á góð samskipti við Færeyinga um sjávarútvegsmálefni. Við leggjum áherslu á að ná samstöðu við Færeyinga og reyndar aðrar nágrannaþjóðir um þessi málefni og við fögnum því að á liðnum vetri hefur þessi samningur verður gerður, sömuleiðis sá samningur sem vitnað var í fyrr í ræðu minni og einnig samkomulag við Grænlendinga um sameiginleg málefni á fiskveiðisviðinu.

Í ljósi alls þessa og þeirrar afstöðu varð það einróma niðurstaða í nefndinni að leggja til að tillagan verði samþykkt.