Kaup skólabáts

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 16:38:13 (5915)

1997-05-06 16:38:13# 121. lþ. 117.17 fundur 310. mál: #A kaup skólabáts# þál., Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[16:38]

Frsm. sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá sjútvn. um till. til þál. um skipun nefndar um kaup eða leigu skólabáts og viðvaningshlutaskráningu.

Mál þetta var sent til umsagnar allmargra aðila eins og fram kemur í nál.

Nefndin tekur undir meginmarkmið tillögunnar, þ.e. að sett verði á stofn nefnd er falið verði að leita leiða til að auka möguleika íslenskra ungmenna á að kynnast undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Í því sambandi verði kannaðar forsendur fyrir rekstri skólabáts, eins eða fleiri, eða leitað annarra leiða til að ná þessu marki. Ekki er talið rétt að binda hendur ráðherra um það hvernig nefndin skuli skipuð. Enda komu fram hugmyndir um að skipa svo stóra nefnd í þetta mál að kostnaður við nefndarstarfið hefði orðið einhvers staðar í námunda við rekstrarkostnað skólabáts í eitt ár. Þannig að rétt er að skipa nefnd af hæfilegri stærð sem getur tekið eðlilega á þessu máli.

Sjútvn. leggur til að tillögugreinin orðist þannig:

Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd til að kanna forsendur fyrir kaupum eða leigu á skólabát, einum eða fleiri.

Nefndin tekur hins vegar ekki undir að það eigi að fjalla um viðvaningshlutaskráningu sjóvinnunemenda um borð í fiskiskipum. Það sé mál sem eigi kannski frekar heima í tengslum við kjarasamninga en það mál er afar viðkvæmt á þeim vettvangi.

Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Undir nál. ritar öll sjútvn.