Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:00:46 (5921)

1997-05-06 17:00:46# 121. lþ. 117.25 fundur 518. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:00]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flm., fimm hv. þm., --- en hér er um konur að ræða úr fimm þingflokkum --- fyrir þessa tímabæru tillögu.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að þessar reglur væru ekki til fyrr en það mál kom upp sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist á hér áðan þar sem hátt settur embættismaður úr ráðuneyti ræður sig til mikilvægra starfa erlendis, kemur síðan heim aftur að loknum störfum og hyggst ganga inn í sitt fyrra starf, sem hann taldi að biði eftir sér, en þá var það ekki lengur til staðar. Sú umfjöllun sem það mál fékk, bæði af hálfu hæstv. ráðherra sem þar átti í hlut og fjölmiðla, var með slíkum endemum að ætla hefði mátt að þessi starfsmaður hefði ekki getað fengið sitt starf aftur vegna þess að hann hefði ekki staðið sig nógu vel í því áður. Þannig var umfjöllunin óréttmæt og þannig er í raun fjallað um þá starfsmenn, embættismenn ríkisins, sem hafa lent í svipuðum aðstæðum. Það er mjög nauðsynlegt að móta þessar reglur, ekki síst með tilliti til þess að við erum nú þátttakendur í mjög öflugu alþjóðlegu samstarfi sem krefst þess að embættismenn okkar og starfsmenn íslenska ríkisins hafi um lengri eða skemmri tíma aðsetur erlendis. Oft á tíðum er þá um að ræða það fólk sem er í störfum í ráðuneytum eða stofnunum ríkisins og hefur fengið þar þjálfun og tekur tímabundið frí frá þeim störfum til að sinna öðrum jafnmikilvægum störfum erlendis í þágu íslenska ríkisins. Ég sé í raun ekkert því til fyrirstöðu þótt stutt sé til þingloka að þessi tillaga gæti náð fram að ganga. Hér er um það að ræða að Alþingi feli ríkisstjórninni að semja reglur um leyfi starfsmanna frá störfum í ríkisþjónustu þegar þeir taka tímabundið við öðrum störfum eins og hjá alþjóðastofnunum sem Ísland er aðili að eða kjörnum trúnaðarstörfum. Við hefðum í raun átt að vera með þessar reglur tilbúnar um leið og við gerðumst t.d. aðilar að EES-samningnum sem fól í sér að við þyrftum að taka þátt í starfi um það bil 300 nefnda skilst mér í Brussel þar sem við ættum rétt á þátttöku en getum ekki vegna þess að við höfum ekki starfsfólk til að sinna því öllu eins og vera skyldi. Það er eðlilegt að það verki ekki beint hvetjandi á starfsmenn ríkisins að taka að sér störf erlendis í þágu íslenska ríkisins þegar móttökurnar þegar heim kemur eru með þeim hætti sem þær voru við þann starfsmann sem hér hefur verið nefndur. Það getur varla verkað hvetjandi fyrir aðra starfsmenn að taka að sér trúnaðarstörf fyrir íslenska ríkið ef viðkomandi aðili á það á hættu að ríkisstjórnarskipti yrðu á því tímabili sem hann starfaði erlendis og móttökurnar yrðu eins og raun bar vitni í þessu tilfelli. Þannig að mér sýnist að við þingmenn ættum að hafa kjark til þess og getu að afgreiða þetta á þeim tíma sem eftir er og mér sýnist þetta vera, ef einhver tillaga er þannig, tillaga sem um ætti að nást þverpólitísk samstaða til að slíkt hneyksli sem þarna átti sér stað endurtaki sig ekki. Við ættum því að standa að því að samþykkja þessa tillögu.