Reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:09:19 (5923)

1997-05-06 17:09:19# 121. lþ. 117.25 fundur 518. mál: #A reglur um ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins frá störfum# þál., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:09]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu góðar undirtektir. Það hefur sannarlega komið vel fram hjá þeim, bæði hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, hve mikilvægt þetta litla mál er. Þá á ég við ,,litla`` um mál sem lætur lítið yfir sér en hefur grundvallarþýðingu fyrir réttarstöðu starfsmanna í ríkisþjónustu og möguleika þeirra og vilja til að starfa tímabundið erlendis og leita þar með eftir reynslu og þekkingu til að koma með hingað heim og bera inn í stjórnsýslu okkar og gera okkur mögulegt að nýta okkur reynslu þjóðanna sem eru bæði fjölmennari og hafa oft tekið fyrr á þeim málum sem við eigum eftir að kljást við.

Það hefur verið vakin athygli á því hverjir eru flutningsmenn þessarar tillögu. En það eru ásamt mér Bryndís Hlöðversdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir og Valgerður Sverrisdóttir.

Þetta mál er sannarlega ekki sérstakt kvennamál. En að mínu mati eru þessar ágætu konur sem flytja með mér þetta mál þungavigtarmenn í sínum þingflokkum, manneskjur með ríka réttlætiskennd. Þess vegna komu þær umsvifalaust með á þetta góða mál og ég vona að það verði til þess að menn sameinist um að afgreiða málið fyrir þinglok. Það yrði Alþingi til sóma og sannarlega til þess fallið að skapa öryggiskennd hjá þeim sem hugsa til þess að starfa tímabundið annars staðar og leita sér þekkingar og reynslu með öðrum þjóðum.