Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:34:14 (5927)

1997-05-06 17:34:14# 121. lþ. 117.21 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:34]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki beinlínis í andsvari heldur að koma með athugasemd eða viðbót við ræðu hv. þm. Ég tek undir að það er orðið afar lítið um það að tillögur stjórnarandstöðunnar nái fram að ganga hér á þessu þingi. En ég vil upplýsa hv. þm. um það að félmn. hefur afgreitt frá sér till. til þál. um fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar og reyndar höfum við víkkað hugtakið aðeins út og viljum að það nái einnig til sveitarfélaganna. Þar er kveðið á um það mjög skýrum orðum að réttur feðra til fæðingarorlofs skuli tryggður. Hann skuli bæði aukinn og tryggt að þeir geti nýtt sér hann. Þetta verður væntanlega samþykkt hér innan tíðar sem stefna ríkisstjórnarinnar. Þannig að vonandi sjáum við fljótt úrbætur í þessu brýna máli. En það breytir ekki því að tillögur þingmanna stjórnarandstöðunnar, góður tillögur, eru ekki teknar inn í þá vinnu sem verið er að sinna og auðvitað er það til skammar hvað við Íslendingar erum orðnir langt á eftir í öllum fæðingarorlofsmálum, ekki bara feðra, heldur mæðra líka.