Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:36:45 (5929)

1997-05-06 17:36:45# 121. lþ. 117.21 fundur 453. mál: #A fæðingarorlof# (veikindi móður eða barns o.fl.) frv., Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:36]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég talaði hér fyrr í dag og mælti þá fyrir hinu sameiginlega nál. heilbr.- og trn. og ég ætla í þessari seinni ræðu minni að leyfa mér að viðra í örstuttu máli þau sjónarmið sem ég hef almennt til þessara mála. Þau tengjast einmitt því máli sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir reifaði í örstuttu andsvari --- fæðingarorlofi feðra. En almennt vil ég segja, herra forseti, um þetta frv. sem við erum nú góðu heilli að leggja drög að að gera að lögum í dag að það er að öllu leyti jákvætt. Auðvitað voru ýmis atriði sem við hefðum gjarnan viljað sjá með öðrum hætti. Því er ekki að neita að ég hefði viljað sjá t.d. rétt fyrirburamæðra rýmkaðan talsvert og ég hefði viljað sjá rétt fjölburaforeldra talsvert aukinn frá því sem er í frv. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að með frv. sé stigið mjög lofsvert skref fram á við og ég taldi ekki rétt að reyna að tefja málið og framgang þess til að reyna að koma þessum sjónarmiðum fram. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt allra hluta vegna að fá þetta frv. í gegn sem fyrst.

Það má rifja það upp, herra forseti, að sérstök nefnd var í því að semja ný drög að lögum um fæðingarorlof. Það tókst ekki samstaða innan hennar, hún var í rauninni sett af af hæstv. heilbrrh. og ég geri engar athugasemdir við það. En fyrir vikið náðist ekki að reifa nægilega eða a.m.k. ekki að leiða til niðurstöðu mikilvæg mál. Þá nefni ég hér sérstaklega fæðingarorlof feðra.

Fram kom hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að nú hefur félmn. samþykkt og sent hingað til síðari umr. þáltill. hæstv. félmrh. um fjölskyldustefnu. Hún lýkur lofsorði á hana og ég efa ekki að þar er margt gott að finna, m.a. rökstyður hún ágæti þeirrar stefnu með því að þar sé lagt til að réttur feðra til fæðingarorlofs verði rýmkaður. Það er af hinu góða. En hún orðaði það þannig að þá mætti gera ráð fyrir því að innan tíðar sæju menn raunhæf skref tekin til þess að auka rétt feðranna sem er auðvitað nánast enginn í dag. Það er gott. Ég gæti af þessu tilefni sagt: Mikil er trú þín, kona. Ég ætla nú ekki að gera það. Hins vegar get ég ekki annað, og sér í lagi með tilliti til allra þeirra feðra sem eru staddir hér í salnum í dag, en að nefna að það er í gangi, það er í gildi, sérstök framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Þessi framkvæmdaáætlun er að renna sitt skeið á enda. Og ég get ekki annað heldur en haft hér eftir, herra forseti, það sem í henni segir um fæðingarorlof feðra. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Á gildistíma þessarar áætlunar verði lögfestar reglur sem tryggi jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs.`` Það er hins vegar svo, herra forseti, að núv. hæstv. heilbrrh. ætlar sér greinilega ekki að verða við þeim ákvæðum sem mæla skýlaust fyrir um að áður en framkvæmdaáætlunin er úti verði lögfestar reglur sem tryggja jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs. Það á ekki að gera það áður en framkvæmdaáætlunin er búin.

Út af fyrir sig er ágætt að það skuli nú liggja fyrir samþykkt innan félmn. enn önnur yfirlýsing um að það eigi að stefna að þessu. En ég spyr: Mun hæstv. ríkisstjórn standa eitthvað betur við það heldur en þau ákvæði sem hún er að brjóta á þessum vordögum og er að finna í framkvæmdaáætlun hennar í jafnréttismálum? Ég sé ekkert sem bendir til þess að það sé eitthvað frekar hægt að treysta henni til þess verks.

Það er rétt að það komi líka fram, herra forseti, að einn af oddvitum ríkisstjórnarinnar, reyndar flestir, eru miðaldra karlar og sumir það aldraðir að þeir eru eiginlega komnir úr barneign. Einn þeirra er t.d. hæstv. félmrh. Páll Pétursson og hann er yfirmaður skrifstofu jafnréttismála. Og það er ekki langt síðan að þar var gefið út rit. (Gripið fram í.) Herra forseti. Það hefur komið fram hér í frammíköllum að sú staðhæfing sem ég setti um getu hæstv. félmrh. sé þess eðlis að menn vilji jafnvel láta á hana reyna. Ég tek ekkert undir það, herra forseti, og er satt að segja skoðanalaus um þetta mál. En það sem ég er að segja hér, herra forseti, er að skrifstofa jafnréttismála, sem hefur að æðsta yfirmanni sínum hæstv. félmrh. Pál Pétursson, gaf nýlega út rit og þar segir, með leyfi forseta: ,,Á Íslandi er fæðingarorlof styst og verst greitt af Norðurlöndunum og réttur feðra lakastur. Þetta mál er í miklum ólestri og er einn af hærri þröskuldum í vegi jafnrar stöðu kynjanna.`` Hver er sá sem ábyrgur fyrir þessu? Það er ekki hv. þm. og mögulega tilvonandi félagsmálaráðherra einhvern tímann í framtíðinni, Magnús Stefánsson, það er hæstv. ráðherra Páll Pétursson. Það er hann sem er ábyrgur fyrir því að leggja þann dóm á stöðu þessara mála í dag að hér á Íslandi sé réttur feðranna hvað fæðingarorlof varðar lakastur. Og hann segir jafnframt að málið sé ekki bara í ólestri heldur einn af hærri þröskuldum í vegi jafnrar stöðu kynjanna.

Ég vænti þess auðvitað, herra forseti, að hv. þm. Magnús Stefánsson, sem er vaskur þingmaður á framabraut, muni koma hér upp og reyna að bera blak af sínum ráðherra. Sér í lagi ef horft er til þess að hv. þm. Magnús Stefánsson, ásamt öðrum þingmönnum Framsfl., háði mjög sigursæla kosningabaráttu þar sem barist var undir merkinu ,,Fólk í fyrirrúmi``. Og meðal þess fólks sem átti að vera í fyrirrúmi voru feður --- voru íslenskir feður. Því var lofað af hálfu Framsfl. að rýmka fæðingarorlof og það er líka hægt að finna tilvísanir í það sem þessir ágætu menn sögðu sem felur beinlínis í sér að það eigi að rýmka fæðingarorlof feðra. Það er líka talað aftur og aftur út um alla kosningastefnuskrá Framsfl. um að það eigi að stíga marktæk skref til þess að rétta af slagsíðuna sem er á mun kynjanna. Hvernig gera menn það best, herra forseti? Ég er þeirrar skoðunar að langbesta leiðin til þess sé einmitt að gera feður þessa lands meðvitaðri um stöðu sína, skyldur sínar og ábyrgð. Og hvernig gera menn það? Menn gera það með því að koma þeim í þá stöðu að þeir geti verið í sem mestri og bestri snertingu við börnin sín. Það leiðir til þess að afstaða þeirra og sýn til lífsins breytist og þá kannski er hægt að breyta þessum inngrónu, hefðbundnu og innrættu skoðunum sem kynslóðirnar hafa haft á hlutverkum kynjanna. Ég held að það sé besta leiðin. Um leið og karlarnir fara að ala upp börnin sín meira, vera í nánari snertingu við börnin heldur en hingað til, þá skynji þeir þetta miklu betur. Og þess vegna segi ég: Þetta er raunhæf leið til þess að koma á meira jafnrétti millum kynjanna. Það getur vel verið að Framsfl. skilji þetta ekki en það er svo lítið sem hann skilur og eitt af því sem hann skilur auðvitað alls ekki er eigin kosningastefnuskrá. En þetta er eigi að síður svona. Þetta er eitt af loforðum Framsfl. og þetta er líka þar af leiðandi eitt af þeim loforðum sem þessi flokkur er að dunda sér við að brjóta.

[17:45]

Ég veit að þessi ræða mín sem er orðin allt of löng fellur kannski í kramið hjá þeim mörgu framsóknarmönnum sem ég sé þegar ég lít hér yfir bekkina. En það má alla vega segja að hér er staddur í dag sá hluti Framsfl. sem ég ber mestar væntingar til þegar til framtíðar er horft. Þess vegna má vel vera að þessi orð mín séu ekki til einskis mælt. Það má vel vera og ég vænti þess að hér á bekkjunum sé að finna frjóa mold fyrir þau sáðkorn sem ég er að reyna að sáldra út meðal framsóknarmanna með orðum mínum. En það voru þeir sem töluðu um nauðsyn þess að bæta jafnrétti milli kynjanna. Það voru þeir sem töluðu um að nauðsynlegt væri að rýmka fæðingarorlof og sumir þeirra tóku sérstaklega til fæðingarorlof feðra. Þeir eru jafnframt aðilar að ríkisstjórn sem hefur þá skyldu að fylgja eftir markaðri framkvæmdaáætlun sem Alþingi hefur samþykkt um jafnréttismál á Íslandi. Hluti af þeirri jafnréttisáætlun er að rýmka fæðingarorlof feðra. Nú er þessi framkvæmdaáætlun að renna sitt skeið á enda. Partur af henni var loforð, yfirlýsing um að áður en hún rynni á enda, áður en henni yrði lokið væri búið að lögfesta reglur um fæðingarorlof feðra. Það á að brjóta. Hvernig á að efna það? Jú, eins og jafnan áður horfa þessir ágætu herramenn, eins og hv. þm. Magnús Stefánsson, til forsrh. sem hefur lýst því yfir á fundi úti á landi að það eigi að gera eitthvað í málinu áður en kjörtímabilið er úti. Enn og aftur er það Sjálfstfl. sem kemur þeim til bjargar, alveg eins og það var Sjálfstfl. sem þurfti að draga hæstv. félmrh. upp úr því díki sem hann álpaðist út í hér í gær og setti allt þingstarfið úr skorðum. En það er auðvitað illt til þess að hugsa að flokkur með hina glæstu fortíð, en vonandi ekki jafnglæsta framtíð, þurfi aftur og aftur að leita til forsrh. og Sjálfstfl. til að bjarga málum sínum. Þess vegna spyr ég þessa mörgu hv. þm. Framsfl.: Eru þeir ekki farnir að skammast sín fyrir hvað þeir hafa brotið mörg kosningaloforð? Vilja þeir ekki reyna að hysja upp um sig brækurnar með því a.m.k. að taka undir það að nauðsynlegt er að fylgja þessari framkvæmdaáætlun eftir sem þeir sjálfir samþykktu á sínum tíma og lögfesta reglur um fæðingarorlof feðra? Það hefði auðvitað átt að nota tækifærið núna. Það var ekki gert og stjórnarandstaðan sá ekki ástæðu til að stoppa mál sem að öðru leyti var mjög gott. En ég hvet hina ungu vösku framsóknarmenn til að taka sér þessa ræðu til eftirbreytni, skoða hana og athuga hvort þar sé ekki að finna nokkuð góða upprifjun á kosningaloforðum Framsfl. í þessu efni. Ef þeir vilja fá upprifjun á öðrum kosningaloforðum sínum vísa ég til fyrri ræðna minna um það mál.