Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 17:50:29 (5932)

1997-05-06 17:50:29# 121. lþ. 117.19 fundur 381. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (félagsmálanefndir, ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl.) frv., Frsm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:50]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 1078 frá félmn. Undir það ritar öll nefndin.

Þetta mál fjallar um það að gerðar eru nokkrar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er lögð til breytt skipan þeirra félagsmálanefnda sem auk annarra verkefna fara með barnaverndarmál --- þar er nefndarmönnum fjölgað um tvo --- kveðið er á um skyldu sveitarfélaga til að bjóða upp á félagslega ráðgjöf og gert ráð fyrir skyldu sveitarfélaga til fjárhagsaðstoðar allt að fjórum mánuðum aftur í tímann frá því að umsókn er lögð fram. Þá eru í frumvarpinu ýmsar aðrar smávægilegar breytingar á lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt að öðru leyti en því að lögð er til ein breyting við 7. gr. þar sem við leggum til að orðin ,,í samræmi við lög þessi og önnur lög eftir því sem við á`` falli brott. Nefndin telur óþarft að kveða á um að slíkar reglur skuli settar í samræmi við lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga og önnur lög eftir því sem við á. Slíkt er augljóst og leiðir af eðli máls.

Í sambandi við þetta mál er rétt að taka fram, herra forseti, að fram kom í yfirferð nefndarinnar varðandi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að þar eru einkum uppi tvö sjónarmið. Það kemur fram í skýringu við frv. og í fskj. að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga voru á öðru máli en aðrir nefndarmenn og skiluðu séráliti. Þar er í rauninni tekist á um, ef svo sterkt má að orði komast, annars vegar að fólk hafi rétt til félagslegrar aðstoðar eða fjárhagsaðstoðar og hins vegar hvort rétt sé að sveitarfélögin hafi þann rétt að setja skilyrði við fjárhagsaðstoðina. Meiri hluti nefndarinnar sem vann að málinu var þeirrar skoðunar að tryggja ætti réttinn en ekki er kveðið á um það í þessari grein að sveitarfélögin geti sett einhvers konar reglur eða fyrirvara enda má í því samhengi vitna í 2. gr. laganna um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna þar sem er að finna markmið laganna sem eru m.a. þau að byggja upp sjálfsvirðingu og veita aðstoð. Það má auðvitað segja sem svo að með því að sveitarfélögunum ber að bjóða upp á félagslega ráðgjöf þá hangir þetta auðvitað allt saman. Ég nefni þetta, hæstv. forseti, vegna þess að ég var sjálf svolítið veik fyrir sjónarmiðum sveitarfélaganna. Ég get ímyndað mér að það geti verið til gagns að setja fólki ákveðin skilyrði, reyna að leiða það inn á réttar brautir en þar með er alls ekki meiningin að svipta fólk réttindum. En niðurstaða allrar nefndarinnar varð sú að skila málinu frá sér eins og það kom frá meiri hluta nefndarinnar. Væntanlega mun reynslan leiða í ljós hvort þörf er lagaheimildar fyrir einhver slík skilyrði eða hvort lögin eins og þau standa nú duga sveitarstjórnunum. Ég hygg að svo sé með tilvísan til 2. gr. laganna, eins og ég nefndi áðan. En það kemur í ljós að þetta eru ekki stórar breytingar sem verið er að gera og nefndin varð einhuga um að afgreiða málið með þessu móti.