Samræming á starfsemi og framkvæmdum ríkisins

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 13:46:48 (5942)

1997-05-07 13:46:48# 121. lþ. 118.2 fundur 586. mál: #A samræming á starfsemi og framkvæmdum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[13:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur borið fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hvað líður því að framfylgja þeirri samþykkt Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun að starfsemi og framkvæmdir ríkisins verði samræmdar og með því reynt að forðast tilviljunarkenndar ákvarðanir?

Hvað líður:

a. samræmingu langtímamarkmiða ráðuneyta og stofnana ríkisins,

b. gerð fjögurra ára áætlana um hvern þjónustumálaflokk sem verði grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma,

c. skipan nefndar til að endurskoða lagaákvæði um áætlanagerð á vegum ríkisins í þeim tilgangi að vinnubrögð verði markvissari og fjármunir nýtist betur?

Nú er liðið á fjórða ár síðan ályktun um stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997 var samþykkt. Sú áætlun var jafnframt hin fyrsta sem gerð er og í ályktuninni er að finna ýmis nýmæli og markmið á borð við þau sem vitnað er til í fyrirspurninni og hv. málshefjandi gerði ágætlega grein fyrir rétt í þessu.

Í fyrsta lagi er spurt um samræmingu langtímamarkmiða ráðuneyta og stofnana. Ég hygg að segja megi að að henni hafi verið unnið á margan hátt þótt ekki hafi verið unnið að því á einum tilteknum vettvangi. Ráðuneytin halda hvert um sig um sína málaflokka og ég ætla að samþykkt áætlunarinnar og umræða um hana hafi orðið til þess að ráðuneytin hafi í auknum mæli miðað uppbyggingu og dreifingu á þjónustu sinni við breyttar forsendur í samgöngumálum og almennt þannig að aðgangur almennings að þjónustunni sé sem bestur. Í þessu felst að forsendur áætlanagerðar ráðuneyta og stofnana hafa í raun verið samræmdar að vissu leyti. Hefur þetta komið fram iðulega þegar mælt er fyrir málum á þinginu og eins innan ríkisstjórnar.

Í þeim svæðisbundnu byggðaáætlunum sem unnið hefur verið að frá því að Alþingi samþykkti stefnumótandi byggðaáætlun hefur verið farið fram á það við einstök ráðuneyti að þau tilgreini áform um þá þjónustu sem þau veita fyrir þau svæði sem fjallað hefur verið um hverju sinni. Byggðastofnun hefur síðan metið þessi áform í þeim tilgangi m.a. að samræma þau.

Í annan stað er spurt um hvað líði gerð fjögurra ára áætlana um hvern þjónustumálaflokk sem verði grundvöllur fjárlagagerðar til lengri tíma. Í þessu samhengi vil ég nefna það að samhliða kynningu á fyrstu svæðisbundnu byggðaáætluninni í ríkisstjórn var rætt um áætlanagerð á vegum einstakra ráðuneyta og eru menn sammála um að mikilvægt sé að starfsemi ríkisins, hvort sem um er að ræða þjónustumálaflokk eða annað, sé byggð upp samkvæmt skynsamlegri forskrift en sé ekki háð tilviljunum. Í þessu sambandi var rætt um það að ráðuneytin þyrftu flest hver að taka sig verulega á. Ég hygg að vonir standi til þess að hér verði bætt úr og vísa ég í því sambandi til þeirra breytinga sem nú er verið að gera á fjárlagagerð ríkisins og til stefnu sem kennd er við árangursstjórnun í ríkisrekstri en um þessar mundir er unnið að því að hrinda henni í framkvæmd. Í þeirri vinnu kallar ráðuneytið eftir áformum stofnana um breytingar og áherslur á starfsemi sinni og hlutast til um þau áform eftir þörfum og ástæðum. Hitt er svo annað mál að eiginlegar fjögurra ára áætlanir fyrir hvern þjónustumálaflokk hafa ekki verið gerðar.

Varðandi nefnd þá sem spurt er um er því til að svara að hún hefur ekki verið skipuð. Ég er efins um að slík nefndarskipan sé brýn, m.a. vegna þess sem ég hef nefnt hér að framan, að ráðuneyti og stofnanir leggja nú almennt meiri áherslu á að setja sér markmið til lengri tíma en fyrr var gert.