Úrbætur í öryggismálum sjómanna

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:04:14 (5948)

1997-05-07 14:04:14# 121. lþ. 118.4 fundur 416. mál: #A úrbætur í öryggismálum sjómanna# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. þann 10. mars sl. lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um öryggismál sjómanna á þskj. 718 þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvernig ráðherrann hygðist bregðast við því ástandi í öryggismálum sjómanna sem fram kom í skýrslu Siglingastofnunar um stöðugleika fiskiskipa. Fyrirspurnin er í þrem liðum og hljóðar svo:

1. Hvernig og hvenær hyggst ráðherra bregðast við og bæta úr því ástandi í öryggismálum sjómanna sem fram kemur í skýrslu Siglingstofnunar um stöðugleika íslenskra fiskiskipa?

2. Verða settar reglur um stöðugleika fiskiskipa sem gilda um öll skip, ný og gömul?

3. Verður tryggt fé til að ljúka þeirri úttekt á stöðugleika fiskiskipa sem unnin var á árunum 1988--1993?

Þann 21. mars, tæpum tveim vikum eftir að fyrirspurninni var dreift í þinginu, kaus hæstv. ráðherra að svara þessum spurningum með því að halda blaðamannafund úti í bæ og kynna þessi mál þar. Ég tel að með þessu háttalagi hafi hann gert lítið úr Alþingi, löggjafarsamkundunni. Hér lá fyrir fyrirspurn sem hæstv. ráðherra hefði getað látið svo lítið að svara á þingi áður en hann kynnti svörin á blaðamannafundi úti í bæ. Þess má geta að fyrirspurnatími var í þinginu daginn fyrir blaðamannafund ráðherrans og hefði honum verið í lófa lagið að svara fyrirspurninni þá því að greinilega voru upplýsingarnar fyrir hendi.

Nú, 7. maí, einum og hálfum mánuði eftir blaðamannafundinn þar sem svörin við fyrirspurninni á þskj. 718 voru kynnt og hér eru til umræðu, þóknast síðan ráðherranum að upplýsa Alþingi um þessi mál. Með þessari framkomu tel ég hann sýna þinginu lítilsvirðingu sem er ekki sæmandi ráðherra. Samkvæmt þingsköpum er þingmanni heimilt að draga til baka eða afturkalla þingmál hvenær sem er og þar sem hæstv. samgrh. kaus að svara fyrirspurninni fyrir einum og hálfum mánuði á blaðamannafundi úti í bæ tel ég ekki ástæðu til að hann endurtaki svörin hér, herra forseti. Fyrirspurnin er því hér með afturkölluð.