Hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:12:09 (5955)

1997-05-07 14:12:09# 121. lþ. 118.5 fundur 417. mál: #A hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:12]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hér liggur fyrir fyrirspurn frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur: Hvaða reglur gilda um hæfniskröfur til þeirra sem hanna og smíða skip hér á landi?

Um þetta er það að segja að í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, segir:

,,Ráðherra setur reglur um hæfniskröfur er þeir sem hanna og smíða skip skulu uppfylla. Þær skulu m.a. taka mið af réttindum hlutaðeigandi iðngreina.``

Hinn 21. mars skipaði ég þriggja manna starfshóp er gera skuli tillögur um reglur að grundvelli ofangreindra ákvæða í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1993, um eftirlit með skipum. Starfshópurinn hefur þegar tekið til starfa og aflar nú gagna innan lands og einnig er unnið úr öllum upplýsingum frá nágrannalöndum sem tiltækar eru og ástæða þykir til að óska eftir.

Í sambandi við þetta mál í heild sinni sem líka varðar þessa fyrirspurn vil ég taka fram að þann hinn sama dag hélt ég blaðamannafund um stöðugleika íslenskra fiskiskipa þar sem ég lýsti því yfir að í samráði við Siglingastofnun og hagsmunasamtök sjómanna og útgerðarmanna yrði ýtt úr vör átaksverkefni með eftirfarandi markmið:

1. Stöðugleiki allra skipa og báta með haffærni skal vera þekktur.

2. Reglur og kröfur um stöðugleika skulu vera skýrar og vel skilgreindar.

3. Verklagsreglur um eftirlit með stöðugleika og framkvæmd reglna um stöðugleika skulu vera skýrar og skilvirkar.

4. Þekking skipstjórnarmanna á stöðugleikamálum skal vera almenn.

Í ljósi þessara markmiða ákvað ég að í upphafi átaksverkefnisins skyldi vera lögð áhersla á eftirfarandi þrjá verkþætti:

1. Eyða óvissu um stöðugleika einstakra skipa með því að láta framkvæma mælingar og útreikning á skipum sem vantar upplýsingar um eða eru með ófullkomin gögn.

2. Jafnframt ákvað ég að lokið yrði á þessu ári við könnun á stöðugleika fiskiskipa sem hófst árið 1989 og hefur fé til þess verkefnis verið tryggt.

3. Þá skal yfirfara og endurskoða núgildandi reglugerðir um stöðugleika, svo og allt verklag við framkvæmd og eftirlit með stöðugleikamálum. Vinnan skal unnin af Siglingastofnun og Sigurði G. Ringsted skipaverkfræðingi í samvinnu við siglingaráð.

3. Gert verður átak í kynningar- og fræðslumálum um stöðugleika. Í þessu sambandi og að höfðu samráði við hagsmunaaðila hef ég skipað starfshóp til undirbúnings námskeiða sem haldin verða um stöðugleikamálin vítt um landið og er Jósef H. Þorgeirsson formaður þessa hóps, en í honum eiga sæti fulltrúar hagsmunaaðila og Slysavarnafélags.

Á undanförnum vikum hafa verið miklar umræður um öryggismál sjómanna. Það er mjög þarft og eðlilegt að þessi málaflokkur sé ávallt undir smásjá en jafnframt nauðsynlegt að umræður um hann séu yfirvegaðar og byggðar á faglegum forsendum. Stöðugleiki fiskiskipa hefur verið ofarlega á baugi í þessum umræðum. Blandaðist þar inn í skýrsla Siglingastofnunar þar sem safnað er saman upplýsingum um stöðugleika þilfarsskipa sem tiltækar voru hjá stofnuninni í desember sl. Skýrslunni var ætlað að vera grundvöllur stefnumótunar og ákvarðanatöku stjórnvalda varðandi stöðugleika fiskiskipa eins og segir í inngangi hennar.

Það væri e.t.v. ástæða til þess, herra forseti, að víkja nánar að þessum málum. Ég hef hér gert grein fyrir því að verið er að vinna á öðrum forsendum en áður og verið að endurskoða þær kröfur sem gera skuli til siglingahæfni skipa. Því miður kaus hv. þm. að draga fyrri fyrirspurn sína til baka þannig að þessi mál fá ekki þá umfjöllun á Alþingi sem ég hefði talið eðlilegt og nauðsynlegt í krafti þeirra miklu umræðna sem hér hafa farið fram, en vegna þess að hér liggur jafnframt fyrir fyrirspurn um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem hanna og smíða skip er sjálfsagt að undirstrika að með þeirri vinnu og með þeim skilgreindu kröfum sem Siglingastofnun mun eftirleiðis gera til sjóhæfni skipa er til fulls svarað þeirri spurningu að því verður fylgt fast eftir að hönnuðir skipa standi undir þeim kröfum sem eðlilegt og sjálfsagt er að til þeirra séu gerðar.