Hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:17:20 (5956)

1997-05-07 14:17:20# 121. lþ. 118.5 fundur 417. mál: #A hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:17]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, fyrir áhuga hennar á þeim málum sem snúa að öryggismálum sjómanna og þeim kröfum sem gera verður til þess að skip séu rétt byggð.

Umræðan um öryggismál skipa er búin að vera mjög áberandi í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og er það vel. Sú umræða hefur leitt í ljós að öryggismál skipa hafa verið í miklum ólestri á undanförnum árum og er nauðsynlegt að grípa til mjög róttækra aðgerða til að ná utan um það mál. Hæstv. ráðherra hefur sem betur fer tekið á því með ýmsu móti en ég hef samt verið að leita mér upplýsinga um það í ráðuneytinu hvernig gangi með starf þess hóps sem hann minntist á áðan að ætti að vera kynningarhópur sem færi um landið. Eftir því sem ég best veit er það starf ekki farið af stað enn.

Ég minni líka á að það er margt annað sem hér virðist geta staðið út af í þessum málum eins og undanþágur sem veittar eru skipstjórnarmönnum sem ekki hafa náð prófum. Það eru 700 slíkar undanþágur gefnar á hverju ári. Hvernig stendur á því, hæstv. ráðherra?