Hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:17:31 (5957)

1997-05-07 14:17:31# 121. lþ. 118.5 fundur 417. mál: #A hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:17]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur kosið að svara um leið og hann svarar fyrirspurn minni um hæfniskröfur þeirra sem hanna og smíða skip, fyrri fyrirspurn minni sem ég hafði afturkallað. Það þýðir lítt fyrir hæstv. ráðherra að kvarta yfir því að umræðan fari ekki fram í þinginu á fundi úti í bæ. Hæstv. ráðherra kaus það sjálfur með því að hefja umræðuna og svara fyrirspurnum mínum hálfum mánuði eftir að þær voru lagðar fram í þinginu. Hann kaus að umræðan færi fram annars staðar, í fjölmiðlum eða á blaðamannafundi úti í bæ í stað þess að taka málið fyrst upp á þingi eins og hefðu verið eðlileg vinnubrögð af ráðherranum.

En ég vil kalla aftur eftir svari hjá hæstv. ráðherra: Hvenær verða gerðar hæfniskröfur til þeirra sem hanna og smíða skip, eins og gert er í öðrum iðngreinum, og ég nefndi áðan? Hvenær telur ráðherrann að þeir hópar sem eru að vinna í málinu verði búnir að skila af sér þannig að eðlilegar hæfniskröfur verði gerðar til þeirra sem hanna og smíða skip? Það er fjöldi manna sem hefur lagt á sig margra ára menntun til þess að sinna slíkum störfum. En eins og málið er í dag þá er alls konar fólk að vinna við þetta sem gerir Siglingastofnun ákaflega erfitt fyrir og stofnunin er sett í mjög erfiða stöðu þar sem hún þarf bæði að lagfæra teikningar, jafnvel hanna skipateikningar, allt á kostnað hins opinbera, og síðan að sinna eftirlitinu og stimpla að þetta sé í lagi og jafnvel fara að meta eigin verk. Það er auðvitað ófært að Siglingastofnun sé í þeirri stöðu og ég kalla eftir því hjá hæstv. ráðherra hvenær hann ætli að ráða bót á þessu ástandi.