Hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:20:58 (5958)

1997-05-07 14:20:58# 121. lþ. 118.5 fundur 417. mál: #A hæfniskröfur skipahönnuða og skipasmiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:20]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vissi ekki um að skipaverkfræðingar og aðrir hönnuðir skipa gætu gengið í smiðju til Siglingastofnunar og beðið hana að yfirfara verkið fyrir sig og laga siglingagalla. En það er fróðlegt og gott að vita að í þeirri stofnun séu hæfir menn sem þar vinna.

Auðvitað er það mikill og ástæðulaus misskilningur hjá hv. þm. að skip fái siglingaleyfi sem ekki geta lagt fullgild gögn fyrir því að stöðugleiki sé í lagi og annað slíkt. Um það eru mjög strangar reglur. Þess vegna er ekki hætta á því að ný skip fái hagfærniskírteini sem ekki hafi stöðugleika. Það er ekki þannig. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. og alveg ástæðulaus misskilningur.

Hitt er hins vegar rétt hjá hv. þm. að hér áður fyrr voru ýmsir bátasmiðir að störfum sem ekki þurftu á því að halda að gera nákvæmar tekningar af skipum sínum eins og allir gera auðvitað nú og þarf ekki að fjölyrða um það. Það er meira að segja svo einnig um trillur nú orðið að þær þurfa að sýna fullkominn stöðugleika og gögn. Ég hélt að hv. þm. væri um þetta kunnugt.

Á hinn bóginn getur það verið svo um opna báta að einhverjir bátasmiðir séu hér enn við lýði sem ekki vinna samkvæmt þeim reglum sem gilda um hafskip og má auðvitað velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að taka það upp. En þilfarsbátar allir verða að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um stöðugleika og þá er ég að tala um ný skip. Þetta á hv. þm. að vera kunnugt.