Danskar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:23:39 (5959)

1997-05-07 14:23:39# 121. lþ. 118.6 fundur 456. mál: #A danskar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er alkunna að Danir eru meðal helstu útflutningsþjóða landbúnaðarafurða í Evrópu. Framleiðsluvörur þeirra hafa alls staðar mjög gott orð á sér og eru taldar í flokki vönduðustu landbúnaðarafurða sem framleiddar eru og til eru á alþjóðlegum markaði og dönsk vörumerki eru alþekkt. Þess vegna skýtur það nokkuð skökku við að þegar kemur að því að möguleiki opnast fyrir að þessar vörur geti staðið íslenskum neytendum til boða, þá sé komist að þeirri niðurstöðu að íslenskum neytendum sé ekki hollt af heilsufarsástæðum að borða sömu vöru og neytendur annarra landa þrífast ágætlega af. Það eru ekki lítil tíðindi fyrir danska útflytjendur landbúnaðarafurða og fólk í öðrum löndum ef Íslendingar komast að þeirri niðurstöðu að þessi ágæta vara sé háskaleg heilsu fólks.

Þess vegna leyfi ég mér að spyrja ásamt þeim Ágústi Einarssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni hæstv. ráðherra nokkurra spurninga:

Í fyrsta lagi. Telur ráðherra að bann við innflutningi á tilbúnum landbúnaðarafurðum frá Danmörku, sem þó er heimill frá ýmsum öðrum löndum, standist GATT-samninginn sem bannar viðskiptahindranir og mismunun milli aðila. Samkvæmt ummælum háttsettra starfsmanna í stjórnsýslunni er þessi innflutningur bannaður af heilbrigðisástæðum eins og ég gat um áðan.

Í öðru lagi er það auðvitað ljóst að sé innflutningur þessara vara bannaður frá Dönum fremur en öðrum þjóðum vegna þess að dönsku afurðirnar eru taldar ógna heilbrigði meira en afurðir ýmissa annarra þjóða af sama toga, þá er eðlilegt að spurt sé eins og gert er í spurningu tvö: Hvaða tilvik bendir þá til þess að landbúnaðarafurðir frá Danmörku séu hættulegar íslenskum landbúnaði, Íslendingum sjálfum eða neytendum af öðru þjóðerni? Við búum ekki einir í heiminum, Íslendingar, og þegar við komumst að slíkri niðurstöðu eða aðilar á okkar vegum, eins og hér er um getið, að þessi vara sé hættuleg má auðvitað búast við því að bæði framleiðendur vörunnar og neytendur í öðrum löndum sem neyta hennar óski eftir því að fá nánari skýringar frá Íslendingum á því hvers vegna þessi vara sé svo hættuleg.

Í þriðja lagi spyr ég, virðulegi forseti: Bendi svar ráðherra við framangreindum spurningum til þess að sérstakrar varúðar þurfi að gæta við neyslu á dönskum landbúnaðarafurðum, til hvaða ráðstafana hyggst hann þá grípa til að vernda íslenska ferðamenn í Danmörku og þær þúsundir íslenskra ríkisborgara sem þar eru búsettar?