Danskar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:32:33 (5961)

1997-05-07 14:32:33# 121. lþ. 118.6 fundur 456. mál: #A danskar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hélt fyrst þegar ég sá þessa fyrirspurn eða a.m.k. 3. tölulið hennar að þetta væri gamansemi og ætlað til þess að lyfta okkur upp í skammdeginum en mér finnst þetta eiginlega versna ef í ljós kemur að fyrirspyrjendum er alvara eins og ætla mætti af framsöguræðu fyrsta fyrirspyrjanda áðan. Málið snýst að sjálfsögðu ekkert um það að hollusta danskra landbúnaðarvara sé eitthvað umdeild. Það er viðurkennt og vitað að þar eru hágæðavörur á ferð, enda fluttar út um lönd og álfur. Málið snýst um það að við, eins og flestar aðrar þjóðir, höfum sett okkur ákveðnar reglur til að tryggja að búfjársjúkdómar flytjist ekki milli landa og til að koma í veg fyrir að uppi séu viðskipti með vörur sem innihalda óleyfileg vaxtarhvetjandi hormónaefni eða aðrar lyfjaleifar.

Þær reglur sem Ísland styðst við í þessum efnum eða þær samningsniðurstöður sem við styðjumst við voru settar í tíð Alþfl. í ríkisstjórn. Mér finnst þetta þess vegna vera heldur léleg fyndni, satt best að segja, sem er þarna í 3. tölulið fyrirspurnarinnar, þ.e. að íslensk yfirvöld þurfi að fara gera eitthvað varðandi þá hættu sem íslenskir ferðamenn í Danmörku séu staddir í af þessum sökum. Málið snýst ekki um það. Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti: Hefur Alþingi Íslendinga ekkert betra við tímann að gera en að eyða honum í aulafyndni af þessu tagi? Mér finnst merkilegt að formaður stjórnmálaflokks, fyrrv. formaður sama stjórnmálaflokks og talsmaður sama stjórnmálaflokks í efnahags- og viðskiptamálum skuli leggja nafn sitt við málflutning af þessu tagi.