Kjötmjölsverksmiðja

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:39:58 (5964)

1997-05-07 14:39:58# 121. lþ. 118.7 fundur 569. mál: #A kjötmjölsverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt á hinu háa Alþingi fram fyrirspurn til hæstv. landbrh., Guðmundar Bjarnasonar, um undirbúning að byggingu og rekstri kjötmjölsverksmiðju.

Árið 1993 var gerð hagkvæmniathugun á byggingu og rekstri kjötmjölsverksmiðju. Í skýrslu sem gerð var m.a. að frumkvæði sveitarfélaga á Suðurlandi í tengslum við þá athugun kom fram að á Íslandi var þá svo til allur sláturúrgangur urðaður og var í mörgum tilfellum staðfest að urðun hefði verið ófullnægjandi, enda hlýtur urðun á svo miklu magni af lífrænum úrgangi alltaf að vera slæmt úrræði af umhverfisástæðum, auk þeirrar smithættu sem slíkt hlýtur að hafa í för með sér. Samband ísl. sveitarfélaga ályktaði einnig um skýrsluna og leggur til að hugmyndin um að koma á fót fullkominni kjötmjölsverksmiðju verði skoðuð nánar. Starfshópur umhvrn. og landbrn. ályktaði einnig um efnið og tók í raun mjög undir hugmyndir um kjötmjölsframleiðslu.

Út af þessari skýrslu spunnust á Alþingi á sínum tíma umræður vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Drífu Hjartardóttur og varð þáv. landbrh., Halldór Blöndal, fyrir svörum. Hann lauk máli sínu á að segja að af þessu tilefni fyndist honum sjálfsagt að taka þetta mál upp að nýju við umhvrn. og að ráðuneytin í sameiningu ræði þetta mál á nýjan leik bæði við sveitarfélög, sláturleyfishafa og bændur til að leita eftir skynsamlegum leiðum sem hafa það tvíþætta markmið að vinna verðmæti úr sláturúrgangi og koma í veg fyrir mengun. Nú væri gaman að vita hvernig þetta samstarf gengur á milli hv. ráðuneyta um lausn á þessu þjóðþrifamáli þar sem þau eru nú bæði undir forræði hæstv. ráðherra, Guðmundar Bjarnasonar.

Mér er kunnugt um að rekin hefur verið lítil verksmiðja í Borgarnesi, sem hefur þó ekki annað að vinna úr en litlu broti af sláturúrgangi landsmanna, en hefur verið að bæta mjög gæði sinnar framleiðslu. Hún virðist nú hafa góða markaðsmöguleika en hefur þó átt í rekstrarvandræðum. Hyggst ráðuneytið styðja við bakið á þessari verksmiðju og eru uppi einhver áform um að koma slíkri verksmiðju upp á því svæði þar sem mestur sláturúrgangur fellur til, en það er á Suðurlandi? Því spyr ég hæstv. landbrh.:

Hvað líður undirbúningi að byggingu og rekstri slíkrar verksmiðju?