Kjötmjölsverksmiðja

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:42:53 (5965)

1997-05-07 14:42:53# 121. lþ. 118.7 fundur 569. mál: #A kjötmjölsverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þessari fyrirspurn sem hv. fyrirspyrjandi Sigríður Jóhannesdóttir hefur gert grein fyrir vil ég aðeins rekja söguna stuttlega, sem hún þó gerði einnig ofurlítið í sinni framsögu, en eins og fram kom hjá henni var það í tíð þáv. hæstv. landbrh., Halldórs Blöndals, sem málin komu upp á Alþingi og hann gerði í svari sínu grein fyrir könnun sem gerð var af starfshópi sem vann á vegum landbrn. og stýrt var af Sveinbirni Eyjólfssyni, deildarstjóra í landbrn., sem átti að kanna möguleika á að vinna kjötmjöl eða aðrar nýtanlegar afurðir úr sláturúrgangi í stað þess að urða úrganginn.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar var sá möguleiki að byggja verksmiðju til að vinna þennan úrgang ekki talinn vera fyrir hendi af fjárhagslegum eða efnahagslegum ástæðum. Það fólst fyrst og fremst í miklum kostnaði sem af þessu leiddi umfram hefðbundnar aðferðir við urðun. Vegna stærðarhagkvæmni var talinn líklegasti kosturinn að byggja eina verksmiðju sem yrði á Suðurlandi. Enginn rekstrargrundvöllur fannst þó fyrir verksmiðjuna, ekki síst vegna mikils flutningskostnaðar. Hugmyndin um eina stóra kjötmjölsverksmiðju var ekki talin framkvæmanleg nema til kæmi verulegur hluti stofnkostnaðar sem ríkisframlag. Sú hugmynd var rædd af hlutaðeigandi aðilum, þ.e. Landssamtökum sláturleyfishafa, stjórnvöldum og sveitarstjórnum. Niðurstaðan varð sú að kostnaður sem legðist á sláturleyfishafa við þetta fyrirkomulag yrði óhæfilega hár og íþyngjandi fyrir verðlag á því kjöti sem kæmi til framleiðslu í sláturhúsunum. Áætlað var að kostnaður á hvert kíló yrði að lágmarki 5 kr.

Með hækkandi urðunarkostnaði á sláturúrgangi hefur þessi umræða vaknað á ný. Urðun sláturúrgangs hefur verið vaxandi vandamál t.d. á Suðurlandi en þar hefur Sorpstöð Suðurlands séð um urðunina. Kostnaður við urðunina sem sláturleyfishafar þurfa að greiða nú er um 3,50 kr. á kíló úrgangs sem lætur nærri því að sama upphæð leggist á hvert kíló kjöts sem framleitt er. Talið er af hálfu framkvæmdaraðila að þessi greiðsla sé fulllág og muni fara hækkandi og nálgast þann kostnað sem fylgdi því að vinna úrganginn í kjötmjölsverksmiðju, eins og ég nefndi fyrr.

Atvinnuþróunarsjóður Suðurlands hefur sýnt þessu verkefni áhuga og mun væntanlega taka það til athugunar með Sorpstöð Suðurlands. Til athugunar verður að vinna kjöt- og sláturúrgang til fóðurs eða sem úrgangsefni til annarra nota, svo sem áburðar eftir því hvaða kostur er talinn hagkvæmastur. Ráðuneytið hefur fylgst með þessum málum ásamt yfirdýralæknisembættinu, sem óhjákvæmilega kemur að málinu, með hliðsjón af þeirri smithættu af búfjársjúkdómum sem fylgja flutningi og urðun kjöts og sláturúrgangs milli landsvæða. Kjötmjölsvinnslustöðvar hafa verið starfræktar í Borgarfirði eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda og einnig að einhverju leyti á Akureyri en eru orðnar gamlar og þarfnast endurbóta. Þær uppfylla því ekki þær heilbrigðiskröfur sem gera þarf til kjötmjölsverksmiðja með hliðsjón af að kjöt- og sláturúrgangur telst til hættulegra efna þar sem í honum geta verið smitefni sem valda búfjársjúkdómum.

Af hálfu afurðasölunnar í Borgarnesi hefur verið áhugi fyrir því að endurbæta verksmiðjuna þannig að hún geti tekið á móti úrgangi og unnið hann í kjötmjöl. Það er tilkomið m.a. vegna tilraunaverkefnis sem verksmiðjan vann á sl. ári í samstarfi við Sorpu um flutning á kjötúrgangi af höfuðborgarsvæðinu til vinnslu. Leitað hefur verið eftir stuðningi opinberra sjóða við framkvæmdina, þar með talið Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Samkvæmt þeim áætlunum sem fram hafa verið lagðar virðist vera hagkvæmt að endurnýja og stækka kjötmjölsverksmiðjuna svo afköst hennar þrefaldist. Með því gæti verksmiðjan annast vinnslu á sláturúrgangi af Vesturlandi og því sem þarf að flytja af svæði Sorpu. Mikill áhugi er á því hjá forsvarsmönnum Sorpu að þetta mál fái farsælan framgang þó að þeir sjái sér ekki fært að styðja málið með fjárframlögum til stofnkostnaðarins. Við framkvæmd verkefnis sem þessa verður að hafa í huga að með vaxandi innflutningi á fersku eða frystu kjöti og eyðingu úrgangs sem fellur til af þessum innflutningi vex verulega hætta á búfjársjúkdómasmiti, ekki síst með því að framleiða úr honum kjötmjöl til skepnufóðurs við ófullkomnar aðstæður. Þrátt fyrir þessa áhættu verður að telja að vinnsla á sláturúrgangi í kjötmjölsverksmiðju sé besti kosturinn sem völ er á til að koma frá sláturúrgangi. Mikilvægt er að stuðla að því að honum sé ráðstafað á þann hátt að í stað þess að grafa hann eins og víðast verður að gera í dag svo framarlega sem það leiðir ekki til óhóflegs kostnaðar sem leggst á sláturafurðirnar.

Nýlega skipaði ég sem umhvrh. starfshóp með fulltrúum bænda til að fjalla um meðferð sláturúrgangs og úrgangs frá afurðastöðvum í landbúnaði, þ.e. förgun eða frekari úrvinnslu þannig að mál þessi eru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum. Vænlegast verður þó að telja að verksmiðja af þessu tagi starfi á viðskiptalegum grundvelli án ríkisafskipta og verður það skoðað til þrautar áður en ákvörðun verður tekin um það að styðja eða styrkja málið beint af opinberum framlögum.