Kjötmjölsverksmiðja

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 14:48:31 (5966)

1997-05-07 14:48:31# 121. lþ. 118.7 fundur 569. mál: #A kjötmjölsverksmiðja# fsp. (til munnl.) frá landbrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:48]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu máli á Alþingi. Eins og fram hefur komið hefur verið rekin kjötmjölsverksmiðja í Bogarnesi mörg undanfarin ár og fyrirtækið hefur verið að sækja fram í bættum gæðum og auknum framleiðslumöguleikum og, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, hefur fyrirtækið verið að berjast fyrir því að fá fjármagn til þess að gera nauðsynlegar endurbætur á búnaði verksmiðjunnar, en það hefur því miður ekki gengið nógu vel hingað til. Þó vil ég upplýsa að Byggðastofnun hefur lýst því að hún sé tilbúin til þess að koma að þessu máli.

Hér er um að ræða mjög arðsama starfsemi að mörgu leyti. Afurðirnar eru notaðar í skepnufóður. Það hafa opnast markaðir erlendis fyrir afurðir verksmiðjunnar og þarna er um að ræða að vinna úrgang í stað þess að urða. Þetta er því mjög mikið umhverfismál þar að auki.

Ég vil nota tækifærið og skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að fyrirtækinu, Afurðasölunni í Borgarnesi, verði gert kleift að byggja upp sinn búnað þannig að sú vinnsla sem þar hefur átt sér stað geti aukist og þannig orðið til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt og ekki síst landbúnaðinn í landinu.