1997-05-07 14:54:29# 121. lþ. 118.8 fundur 588. mál: #A fjárveiting til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[14:54]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Í 6. gr. fjárlaga ársins 1997 er að finna undir liðnum Ýmsar heimildir heimild til fjmrh. til að ráðstafa, að fengnum tillögum iðnrh., allt að 80 millj. kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Sérstaklega skal huga að atvinnusköpun á þeim landsvæðum sem ekki njóta góðs af atvinnustarfsemi sem tengist uppbyggingu á orku- og stóriðjusviði.

Ég vil í framhaldi af þessu leyfa mér að bera fram á þskj. 1007 svofellda fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um fjárveitingu til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu:

,,Til hvaða verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu er varið 80 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt lið 5.16 í 6. gr. fjárlaga, hve hárri fjárhæð í hverju tilviki og eftir hvaða reglum er farið við úthlutun?``