1997-05-07 15:00:03# 121. lþ. 118.8 fundur 588. mál: #A fjárveiting til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin sem hann gaf við fyrirspurninni. Það er ljóst af svörum hans að þessu fé, 80 millj. kr. hefur ekki verið ráðstafað enn þá. Ég skil svör hans þannig. Ég skil svör hans líka á þá lund að auglýst verði eftir umsóknum í öllum tilvikum. Þegar mótaðar hafa verið reglur og ráðherra hefur gert upp við sig helstu flokka sem hann vill beina fé til verði auglýst eftir umsóknum.

Að öðru leyti er fátt meira um svörin að segja þar sem málið er ekki lengra komið en raun ber vitni, en ég spyr ráðherrann að hve miklu leyti þess muni gæta í áherslum að fénu verði varið sérstaklega til þeirra landsvæða sem ekki njóta góðs af uppbyggingu stóriðju. Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra gæfi okkur aðeins meiri upplýsingar um að hve miklu leyti verður lögð áhersla á að beina fénu á þau landsvæði og hvaða landsvæði það eru að hans mati.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi athugað hvort þessi útflutningstyrkur samræmist reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, reglum EFTA og ESA. Væri fróðlegt að heyra frá ráðherranum ef þessar stofnanir hafi ekki samþykkt þessa meðferð. En ég vek athygli á því að lokum, herra forseti, að þó að hér sé að mörgu leyti um að ræða áhugavert verkefni er umhugsunarefni fyrir Alþingi að verja 80 millj. kr. til eins ráðherra til nánast frjálsrar úthlutunar á meðan stofnun eins og Byggðastofnun hefur 50 millj. til að verja í styrki í alla þá starfsemi sem henni er beitt til.