Dómar, skaðabætur og fjöldi grófra líkamsárása

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 15:05:34 (5973)

1997-05-07 15:05:34# 121. lþ. 118.9 fundur 600. mál: #A dómar, skaðabætur og fjöldi grófra líkamsárása# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á undanförnum missirum hefur vaxandi ofbeldi og fíkniefnaneysla oft orðið tilefni umræðu á hv. Alþingi. Grófar og iðulega tilefnislausar líkamsárásir hafa líka sett óhug að þjóðinni, enda um að ræða hvað alvarlegustu brot samkvæmt hegningarlögum en refsiramminn fyrir stórfellda líkamsárás er fangelsi allt frá 3--16 árum ef um stórfellt líkams- og heilsutjón er að ræða vegna árása.

Hæstv. dómsmrh. hefur lýst því yfir að þyngja beri dóma fyrir líkamsárásir sem er ástæða til að fagna.

Í skýrslu frá forsrn. í apríl 1996 sem lögð var fram á Alþingi kemur fram að heildarfjöldi tilkynntra ofbeldisverka til lögreglu hafi aukist, hærra hlutfall brota er kært til lögreglu en áður var og að ýmsir samverkandi þættir hafi breytt mynstri ofbeldis. Aukin áfengis- og fíkniefnaneysla hafi vegið þar þungt og aukið alvarleika verknaða þótt ekki sé alltaf um fjölgun tilvika að ræða og oft sé um að ræða tilefnislausar árásir.

Vægir dómar vegna ofbeldis og einnig litlar bætur fyrir líkamstjón vegna ofbeldisverka hafa oft verið gagnrýnd. Með skaðabótalögunum frá 1993 voru gerðar verulegar breytingar til hagsbóta vegna bóta fyrir þá sem verða fyrir líkamstjóni. Það er nauðsynlegt að Alþingi fái að fylgjast vel með þróun þessara mála og hvaða áhrif til að mynda nýju skaðabótalögin hafa haft. Því spyr ég hæstv. dómsmrh.:

1. Hver var fjöldi grófra líkamsárása á tímabilinu 1. janúar 1993 til 1. maí 1997?

2. Hve oft hlutu þolendur örorku vegna þessara líkamsárása og hve háar voru skaða- og miskabætur til þeirra í hverju tilviki?

3. Hve þunga dóma hlutu gerendur líkamsárásanna á framangreindu tímabili?