Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 15:25:26 (5980)

1997-05-07 15:25:26# 121. lþ. 118.10 fundur 601. mál: #A réttarstaða fólks í óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra valda mér verulegum vonbrigðum. Hæstv. ráðherra virðist samkvæmt því sem fram kom í hans máli raunverulega ekki ætla að vinna það verk sem Alþingi fól dómsmrn. árin 1981 og 1982. Ég veit að það eru margir dómsmálaráðherrar sem hafa komið að ráðuneytinu frá þeim tíma, en engu að síður er þetta verk óunnið. Um þetta er spurt núna. Þegar ég spurðist síðast fyrir um þetta 1983, þá sagði hæstv. dómsmrh. að hann hefði hug á að leggja fram tillögur til þess að tryggja betur réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Mér finnst að Alþingi geti ekki fallist á að þál. sem Alþingi hefur afgreitt frá sér, um að það eigi að tryggja betur eignar- og erfðarétt fólks í óvígðri sambúð, sé afgreidd með þessum hætti af framkvæmdarvaldinu.

Hæstv. ráðherra segir að umdeilanlegt sé að festa í lög slíkan rétt. Það eru örugglega skiptar skoðanir um það, en ég tel engu að síður að það þurfi að tryggja hann betur heldur en nú er gert vegna þess að raunveruleg staða fólks í óvígðri sambúð er óviðunandi. Í bók sem kom út eftir Guðrúnu Erlendsdóttur, er aðalreglan um fjármál fólks í óvígðri sambúð sú að sambúðarfólk er eins sett og tveir einstaklingar. Ég er alveg viss um að fjöldi fólks í óvígðri sambúð gerir sér ekki grein fyrir þessu.

Ég vil þó fagna því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um fræðsluna sem fyrirhuguð er um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð, en ég skal láta það vera mín lokaorð að ég tel að Alþingi hafi ekki sagt sitt síðasta orð í þessu efni og að fjalla þurfi um það ítarlegar en gefst hér tími til í stuttum fyrirspurnatíma hvort Alþingi telji ekki eðlilegt, eins og raunverulega var fallist á á árunum 1981 og 1982, að tryggja eigi betur réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð, ekki síst með tilliti til eignar- og erfðaréttar.