Staða þjóðkirkjunnar

Miðvikudaginn 07. maí 1997, kl. 18:42:38 (5987)

1997-05-07 18:42:38# 121. lþ. 119.25 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:42]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Meginreglan í því frv. sem hér er til umræðu er sú að ákvörðunarvald í ytri málefnum þjóðkirkjunnar færist að mestu leyti frá Alþingi og ráðuneyti til kirkjuþings og biskupsembættisins. Frá 1931 þegar lög voru sett um kirkjuþing hefur þjóðkirkjan haft ákvörðunarvald í innri málum sínum, svo sem varðandi sálmabók, helgisiði, fermingu o.s.frv. þar ákvörðunarvald í ytri málum um skipan prestakalla og prófastsdæma, veitingu prestakalla og allt í þeim dúr var og er hingað til í höndum Alþingis og ráðuneytis. Nú verður sú breyting á að þetta ákvörðunvarvald í ytri málum á að færast til kirkjuþings sem fær það hlutverk að setja starfsreglur um þá þætti kirkjustarfseminnar sem hingað til hafa verið í höndum löggjafans auk þess auðvitað að setja reglur um innri mál kirkjunnar áfram.

Til stjórnunar í þjóðkirkjunni eru kallaðir bæði leikir og lærðir og það á við öll stig stjórnunar, ekki aðeins á kirkjuþingi. Kirkjan starfar í söfnuðum um land allt og þar fer hið raunverulega kirkjustarf fram. Það fer ekki fram á kirkjuþingi nema að svolitlum hluta og kirkjuþingið má ekki verða svo fjölmennt að það trufli starf kirkjunnar í söfnuðum. Það má ekki upptaka starfsmenn kirkjunnar, leika og lærða, við að vera að þrefa um stjórnunarmálin þannig að annað sem er brýnast, boðun fagnaðarerindisins, líði fyrir það. Presturinn er leiðtogi safnaðarins eða hirðir eins og það heitir á máli kirkjunnar. Hann starfar samkvæmt köllun og vígslubréfi að predikun og veitingu sakramenta kirkjunnar, uppfræðslu og sálgæslu. Sóknarnefndin ber aftur ábyrgð á að starfinu séu sköpuð skilyrði, húsnæði sé fyrir hendi og fleira því tengt en boðun fagnaðarerindis, guðþjónusta, sakramentisþjónusta, trúfræðsla og sálgæsla í söfnuðum er allt saman á ábyrgð prestsins. En um leið hafa fleiri en presturinn í söfnuðinum hlutverk sem fela í sér boðun, kennslu og sálusorgun og bera ábyrgð sem slíkir. Prestur án samverkamanna í söfnuðinum er álíka vonlaus og söfnuður án prests.

Það athugist alveg sérstaklega að í þessum lögum og í kirkjurétti er presturinn ekki settur undir vald sóknarnefndarinnar og sóknarnefndin er ekki undirnefnd prestsins. Báðum aðilum er fengið mikið umboð og nú miklu meira umboð með auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar.

Þá er þess einnig að geta, herra forseti, að enginn söfnuður stendur einn heldur myndar þjóðkirkjan eina heild safnaða og er að sínu leyti grein á meiði hinnar alþjóðlegu kristnu kirkju.

Kirkjuþingið, svo að við víkjum að því, er fulltrúasamkunda safnaðanna í landinu. Það er skipað fulltrúum í ákveðnum hlutföllum milli presta og sóknarnefndafólks eins og fram hefur hér komið. Hingað til hafa hlutföllin verið jöfn en samkvæmt frv. fá leikmenn nú meiri hluta. Ástæða þess var sú að fyrirhugað var að leggja niður leikmannastefnuna en margir hafa talið, bæði lærðir og leikir ef nota má það kirkjulega hugtak, að lítill árangur væri af starfi leikmannastefnu og væri eðlilegra að báðir aðilar, prestar og leikmenn, störfuðu saman á sameiginlegu þingi, kirkjuþingi, en leikmenn þar í meiri hluta.

Það er rétt að taka fram til skýringar að hugtakið ,,leikmaður`` merkir á máli kirkjunnar hvern þann safnaðarmann sem hefur ekki hlotið kirkjulega vígslu. Þess misskilnings hefur gætt að það séu einungis þeir kirkjulegu starfsmenn sem vinna í kirkjunni aðrir en prestarnir. Þetta orð, leikmaður, er af grískum uppruna og er laikos á grískunni, ef ég man rétt, og merkir þann sem tilheyrir söfnuði guðs á jörð. Málefni leikmanna eins og fjalla á um á leikmannastefnu eru sem sagt málefni allrar þjóðarinnar annarra en presta, þ.e. allra sem eru skírðir og eru í þjóðkirkju Íslands.

Önnur breyting á skipan kirkjuþings er sú, sem hv. formaður allshn. gat einnig um, að biskup er ekki forseti kirkjuþings samkvæmt frv. heldur kemur kirkjuþing til með að kjósa forseta úr röðum leikmanna á kirkjuþinginu.

Herra forseti. Kirkjan er samfélag skírðra manna og mikilvægi þess er áréttað í 1. gr. þessa lagafrv. þar sem skírn í nafni heilagrar þrenningar er sett sem skilyrði fyrir þátttöku í henni. Uppbygging og skipulag kirkjunnar er vissulega mjög þýðingarmikið vegna þess að boðun fagnaðarerindisins sem er höfuðhlutverk og viðfangsefni kirkjunnar á svo mikið undir því. Kirkjan byggir á opinberuninni Jesú Kristi sem er hjálpræðið fyrir alla sköpuninna. Ef ekki væri sá kjarni fagnaðarerindisins sem verið væri að boða og kirkjan samanstæði af væri heldur ekkert með kirkju að gera. Það er Kristur og hann krossfestur og upprisinn sem gefur kirkjunni líf og er ástæða þess að ástæða er til að hafa kirkju. Ytri umgjörð kirkjunnar þarf að taka mið af þessu og vera í samræmi við fagnaðarerindið. En kirkjuskipanin, kirkjulögin, eiga að vera verkfæri fyrir fagnaðarboðskapinn og það er þannig sem heyra saman trúarjátning og kirkjuréttur.

Herra forseti. Trúverðugleiki kirkjunnar byggist á því hversu vel tekst að koma boðskap Krists um kærleika, misk\-unn og fyrirgefningu til skila í starfi og allri tilveru kirkjunnar. Trú kirkjunnar, trúarjátningar og kenning hljóta því að móta hina ytri umgjörð og það er þetta sem er viðfangsefnið við lagasetningu um þjóðkirkjuna. Á breytingaskeiði eins og nú stendur yfir kenna margir óróleika, jafnvel kvíða ásamt þó með eftirvæntingu, þegar stofnun sem á mikla sögu og hefðir er í deiglu endurnýjunar og endurnýjungar en þannig er raunar öll saga kirkjunnar. Þegar ekki á sér stað endurnýjun er hætta á kyrrstöðu. Þegar ekki var trúar- og guðfræðiumræða í veröldinni voru fordómarnir verstir. Kirkjan er lifandi hreyfing. Eins og allt sem lifir breytist hún hið ytra þótt andinn sé sá sami, þótt Kristur og boðskapurinn sé hinn sami um allar aldir.

Herra forseti. Ég vil víkja aðeins að lýðræðinu í kirkjunni. Kirkjan er samfélag skírðra manna og þar eru allir jafnir. Meðal skírðra manna er enginn mismunur og engin mismunun. Páll postuli orðar það svo að í kirkjunni megi ekki vera nein aðgreining milli gyðinga og Grikkja, þræla eða frjálsra, karla eða kvenna heldur séu allir lærisveinar Krists eitt í honum sem var ekki í samtíðinni á þeirri tíð heldur var rík aðgreining milli stétta og kynja. Þetta áréttaði Lúther sterklega um sína daga með kenningu sinni um hinn almenna prestsdóm, en sú kenning byggist á Nýja testamentinu eins og þingheimi er kunnugt.

Herra forseti. Samkvæmt kristniboðsskipun Krists er hver einstakur skírður einstaklingur ábyrgur fyrir trú kirkjunnar, boðun hennar og kenningu. Allir skírðir eru ábyrgir, hvort sem þeir eru vígðir eða óvígðir, og fara sameiginlega með ábyrgðina á því að kirkjan sinni sínu mikilvæga og háleita hlutverki. Kirkjan er söfnuður, samfélag í Kristi á máli Biblíunnar. Hún er hvort tveggja í senn prestakirkja og safnaðarkirkja, þjónusta og umboð presta, prófasta og biskupa er vissulega mikið í kirkjunni en almenna ábyrgðin sem byggist á skírninni og er allra þjóðkirkju manna ræður miklu um hvort kirkjan er og verður raunveruleg þjóðkirkja. Þessi sameiginlega ábyrgð er fyrir hendi í kirkjunni, sameiginleg ábyrgð presta og leikmanna allt frá frumkirkjunni þannig að hefðin er ekki ný.

Herra forseti. Köllunarhlutverkið er eitt af því miðlæga í lútersk-evangelískri kirkju. Hver einstaklingur er kallaður til þjónustu við náungann, hver maður er kallaður til að bera trúnni vitni. Áhrif kristinnar trúar og lífsgilda velta á því að gildin séu allra og hluti af lífi fólksins í þjóðfélagsumræðunni, á vinnustöðunum, í frítímanum o.s.frv. Það er ekki aðeins vegna þátttöku presta og sóknarnefnda heldur þátttöku allra jafnt að þjóðkirkja er þjóðkirkja sem stendur undir nafni, að hún er farvegur fyrir réttlæti, miskunn og kærleika um allt samfélagið. Þetta er kirkjunni ætlað að vera og ef hún ekki sinnir því þá er hún ekki neitt. Þetta verða bæði prestar og leikmenn í kirkjulegu starfi að þekkja í þaula. Báðir eru að þjóna og bera ábyrgð og því er samstarf í kristnum anda frumskilyrði og grundvallaratriði. Þjóðkirkjan er og verður öllum opin, þeim leitandi og efandi ekkert síður en hinum trúarvissu. Hún er og verður samfélag allra jafnt, rúmar alla hvar sem þeir eru staddir á vegi trúar, karla og konur, fólk af ólíkum uppruna með ólíkan menningarlegan og félagslegan bakgrunn. Hún er öllum opin og fyrir alla.

Herra forseti. Ég vil víkja lítillega að eignarmálum kirkjunnar og því sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar í allshn. hafa gert fyrirvara um þó vissulega hafi nefndin náð ágætri niðurstöðu og samstöðu í flestu því sem hún hefur unnið og sérstaklega vil ég taka fram í þessum kirkjulegu frumvörpum. Þess er að geta að í upphafi kristni á Íslandi voru allar kirkjur einkakirkjur. Höfðinginn, kirkjubóndinn, átti þær eins og hverja aðra eign. Biskup vígði þá fyrst kirkju að kirkjueigandi hefði tryggt henni fjármuni til viðhalds. Svo þekkjum við það þegar tíundarlögin voru tekin upp 1096. Reyndar var sérkennileg fyrirmynd af þeim frá Frakklandi á dögum Karlamagnúsar en það er önnur saga. En tíundin var fjórskipt í þá daga.

Fyrsta hlutann átti kirkjan að fá en höfðinginn átti kirkjuna og því rann sá hluti í vasa höfðingjans. Preststíundin var önnur og átti að launa prestana af þeim hluta tíundarinnar. Ef ég man nokkurn veginn rétt úr Grásgás þá segir svo um kirkjupresta og ég bið afsökunar á málfærinu en það er svona skráð í Grágás:

,,Rétt er manni að láta læra prestling til kirkju sinnar. Skal hann gera máldaga við sveininn ef hann er 16 vetra en við foreldra hans ef hann er yngri. Sá máldagi skal allur haldast er í öndverðu er gjörður. Ef prestur flýr kirkju,`` nú taki hv. þingheimureftir, ,,ef prestur flýr kirkju þá sem hann er tillærður varðar skóggang að eiga við hann nokkur mök eða þiggja af honum þjónustu og skal reka mál hans fyrir fimmtardómi á Alþingi sem annarra mansmanna.``

Lengra verður ekki komist, herra forseti, í æviráðningu. En þeir voru eins og eign höfðingjans, rétt eins og kirkjan, þeir drengir sem margir undir 16 ára aldri voru teknir og settir til að læra til prests og þjóna síðan kirkjunni, en þeir áttu náttúrlega ekki preststíundarhlutann heldur höfðinginn sem hélt þá ánauðuga og æviráðna.

Þá er þriðji hluti fátækratíundarinnar. Henni réðu líka höfðingjar eins og okkur er kunnugt. Deilur Guðmundar Arasonar góða og Kolbeins Tumasonar og fleiri höfðingja snerust einmitt um innheimtu þessa hluta tíundarinnar. Þegar Guðmundur góði Hólabiskup fór um, eins og skáldið Davíð Stefánsson segir, með hungraðan skrílinn á hælum, stórt hundrað af pútum og þrælum, þá var hann með fátækt fólk á ferð að innheimta tíundina. Hann var ekki að setjast upp til að éta höfðingjana út á gaddinn heldur notaði hann þessa einu mögulegu aðferð til þess að fátæklingarnir fengju í sig, að fara og innheimta þennan hluta tíundarinnar hjá höfðingjunum, enda hélst honum þetta ekki uppi mjög lengi og hann var nánast í stofufangelsi síðustu tvo áratugi ævi sinnar.

Þessir þrír fjórðungar tíundar lentu hjá höfðingjunum að verulegu leyti en þeir urðu að vísu að skila biskupstíundinni til að kosta biskupsembættin og prestaskólana og gætum þess að af þessum hluta tíundarinnar urðu staðirnir í Skálholti og Hólum veglegastir allra bæja á Íslandi. Þá sjáum við, herra forseti, hversu mikið fé hefur verið þarna milli handa höfðingjanna.

Um 1150 fer höfðingjum að svíða mjög hversu miklum biskupstíundum þeir urðu að skila og tóku því upp það ráð að gefa verulegan hluta eigna sinna til kirkna sem þeir áttu. Þetta er mikilvægt atriði í sögunni og ég bið þess að hv. þingheimur taki eftir því. Þannig áttu þeir höfðingjarnir engar eignir sem þeir þyrftu að greiða tíund af en hirtu hins vegar arðinn í nafni kirkjunnar og vörðu honum eins og þeir sjálfir vildu. Höfðingjarnir settu staðina og tiltóku hvaða eignir þeir lögðu til kirkjunnar í jörðum og lausafé og þar með taldist kirkjan eiga þessa fjármuni en þeir höfðu þann skilmála að þeir og þeirra erfingjar skyldu ævinlega halda og varðveita þetta kirkjufé.

[19:00]

Þessi yfirráðaréttur erfðist með sama hætti og önnur eign. Um þetta snerust staðamálin, þ.e. um yfirráðin yfir þessum eignum, hvort þær væru kirkjueignir eða eignir höfðingjanna. Þá er það eins og við sem undirbjuggum framlagningu frv. á síðustu stigum þess heyrðum sífellt hjá einum nefndarmanna sem er manna fróðastur og presta fróðastur um þessa sögu, séra Geir Waage, að það var í Ögvaldsnesi í Noregi sem Árni Skálholtsbiskup og Eiríkur Magnússon, kallaður Eiríkur prestahatari, gerðu lyktir á staðamálum 1297. Síðan réðu prestar í umboði biskupa þeim kirkjueignum sem voru að hálfu eða meiru í eigu kirkjunnar, en höfðingjar þeim sem þeir áttu meiri hlutann í.

Á 14. öld festist svo þessi prestakallaskipan sem enn stendur að stofni til utan um þessar eignir. Þessi sjálfstæðu kirkjulén kostuðu ... Herra forseti. Ég hef aldrei predikað þannig að ég hafi þurft að hasta á söfnuðinn. En þetta eru brýn mál sem ég vildi sannleikans vegna koma á framfæri og vildi gjarnan að menn fylgdust með því, ekki síst ef hv. þingmenn ætla að taka þátt í þessari umræðu, og vissu af því að eignirnar sem taldar eru kirkjueignir hafa frá öndverðu verið í þágu þjónustunnar og eign safnaðanna, eign prestakallanna sjálfra. Það er mikilvægt að hafa í huga. Þær eru stofnfé prestakallanna og lénskirknanna. Á þessu varð engin breyting með siðbót. Prestakallaskipan og sóknaskipan stóð lítið röskuð áfram. Þannig hefur þessi eign aldrei tilheyrt neinni sérstakri kirkjudeild heldur alltaf verið sjálfstæð eign prestakallanna sjálfra í landinu. Þetta er afar mikilvægur punktur vegna þess að menn hafa minnst á það í umræðunni, bæði úti í þjóðfélaginu í okkar ágætu hv. allshn., að hugsanlega ætti kaþólska kirkjan einhvern rétt til þess að sækja í þessar eignir. Þær hafa alltaf verið eign prestakallanna, sóknanna í landinu, og það er afar mikilvægt að halda því til haga.

Síðan gerist það um síðustu aldamót að sett voru lög um umsjón og fjárhald kirkna. Sóknarnefndum var falið að taka við lénskirkjunum úr höndum prestanna án þess að tekjustofnarnir væru látnir fylgja úr hinu forna jarðeignasafni. Þess í stað voru tekin upp sóknargjöld. Hinum fornu jarðeignasöfnum var hins vegar ætlað að framfæra prestana.

Lögin nr. 46/1907 breyta í raun og veru engu um þetta. Kirkjujarðirnar aðrar en prestssetrin sjálf voru teknar undan prestaköllunum til að selja þær eða leigja ábúendum en leigurnar og andvirðið rann í prestlaunasjóð þar sem hvert prestakall átti sína sérstöku deild og rentan skyldi ævinlega standa undir launum prestanna.

Herra forseti. Þegar sú breyting varð upp úr aldamótunum að kirkjurnar voru afhentar sóknarnefndum en sóknarnefndir ófærar um að vera vörslumenn eignanna voru sett lög sem kveða á um að hvorki sóknarnefndir né sveitarstjórnir heldur ríkisvaldið fari með vörslu þessara eigna. Þetta eru lög frá Alþingi. Þá er gerður samningur um að ríkið launi prestana af þessum höfuðstól. Það er eins og með hvern annan höfuðstól sem er lagður inn að af honum eru vextir og við skulum segja að að núvirði sé 8--10 milljarðar, svo við tökum dæmi. Hvað eru þá miklir vextir á ári? Er starf kirkjunnar þá þannig að það éti upp á innan við 15 árum, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan, allan höfuðstólinn? Öðru nær. Kirkjan nýtur arðs af eignum sínum sem ríkið tók við samkvæmt þeim samningi sem ríkið og Alþingi átti stærstan hlut í að gerður var. Ástæðan fyrir því var sú að það þurfti að fara að byggja upp samkvæmt nýjum tíma í sveitum landsins og þá var nauðsynlegt að bændur væru ekki leiguliðar heldur ættu sjálfir sínar jarðir. Þá mundu þeir gera jörðunum meira til góða en annars væri.

Þetta var forsendan fyrir því að lögin voru sett 1907 og þetta er líka mikilvægt atriði. Það var ekki kirkjan sem bað um þetta heldur var þetta ákveðið af hinu háa Alþingi í þágu uppbyggingar landbúnaðar á Íslandi.

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson minntist á að það þyrfti að auka styrk og stöðu kirkjuþings. Það fengi það mikil völd. Það er vissulega rétt og ég skil hans sjónarmið, en ég hygg nú samt að talan 21 sé heppilegri en 63 af ástæðum sem ég greindi lítillega frá áðan og er vissulega tilbúinn að rökstyðja frekar, bæði með því að kostnaður verður margfaldur af þinghaldinu og eins hitt að það tefur presta og leikmenn í safnaðarstarfi frá raunverulegu kirkjulegu starfi í söfnuðum landsins.

Hv. þm. nefndi einnig að það væri nægjanlega tryggt með úrskurðarnefnd að prestur sem ekki getur haldið frið við söfnuð sinn víki þannig að ekki þurfi þess vegna að taka upp fimm ára ráðningu presta. Þessu er ég algerlega sammála. Það er ekki nauðsynlegt að hafa þessa fimm ára ráðningu af þeim ástæðum. Ég tel mig vita með allmikilli vissu að hv. Alþingi er ekki tilbúið að fallast á æviráðningu presta og gott og vel. Alþingi setur lögin og við tökum þátt í þeirri lagagerð. Fimm ára reglan er ekki sett til að auka á hreyfanleika, að prestar flytji sig oftar milli safnaða en þeir gera, heldur er ástæðan sú, eftir því sem ég skil best, að þingið vilji tryggja að samkomulag geti verið upp á það besta með prestum og söfnuðum. Ef svo væri ekki, þá væru tiltæk ráð til þess að skilja þar á milli og einfaldara er að presturinn flytji sig um set en flytja söfnuðinn frá prestinum svo að ég orði þetta í hálfgerðum hálfkæringi.

Hitt er annað mál, talandi um það að biskupsembættinu og setu í biskupsembætti yrðu sett tímamörk, þá hygg ég það ekki vera skynsamlegt. Þetta kom einnig fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Ég bendi á það að á þessari öld hafa aðeins tveir biskupar setið lengur en 15 ár, Jón Helgason og Sigurbjörn Einarsson. Hvorugur þeirra var of lengi í embætti að mati þjóðarinnar á þeirra tíð.

Það má fara aftar í söguna og rekja. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup hefur setið biskupa lengst, 56 ár á biskupsstóli. Hann var heldur enginn aukvisi og veitti ekkert af þessum tíma til þess að koma sínum stórvirkjum í framkvæmd fyrir þjóð og trú.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um að ágreiningur milli leikmanna og presta, milli stjórnar Prestafélags Íslands og samtaka sóknarnefnda í Reykjavíkur- og Kjalarnesprófastsdæmum hefði verið verulegur. Ég varð var við það í umræðu í hv. allshn. að báðir þessir aðilar töldu afar mikilvægt að sá umbúnaður væri við þessa rammalöggjöf að engin hætta yrði á því að prestar og söfnuðir gætu ekki starfað í friði. Það var beggja markmið og mikilvægt að sinna því háleita hlutverki í sameiningu í samstarfi með sameiginlegri ábyrgð sem kirkjan stendur fyrir. Ég sá því ekki slíkt. Hins er að geta að samtök sóknarnefnda á suðvesturhorninu eru seint til komin og tóku af þeim ástæðum ekki þátt í þeirri vinnu sem átti sér stað á undanförnum árum, á kirkjuþingi tvisvar eða þrisvar, á leikmannastefnu einnig tvisvar eða þrisvar, í söfnuðum landsins, á héraðsfundum, í prófastsdæmum landsins og þannig mætti lengur og lengur telja, að mjög margir komu að þessari lagasmíð á fyrri stigum og vissulega skilaði það sér áfram.

Herra forseti. Ég fer að láta lokið mínu máli. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir taldi að jarðirnar sem kirkjan hefði átt stæðu ekki undir stórum fjárhæðum í dag. Sumar þeirra eru langtum verðmætari, aðrar auðvitað minna og lítils virði. Þá er þess að geta líka að þær hafa sumar og jafnvel margar verið seldar langt undir kostnaðarverði. En allt slíkt er vissulega hægt að taka upp og reikna en það firrir kirkju og Alþingi þess að reikna, meta og endurmeta þessar fjárhæðir að láta þann samning taka gildi sem að bestu manna yfirsýn af hálfu ríkis og kirkju hafa gert og ég er tiltölulega sáttur við niðurstöðu þeirra.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.