Viðskipti með aflaheimildir

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 13:36:20 (5993)

1997-05-09 13:36:20# 121. lþ. 120.95 fundur 321#B viðskipti með aflaheimildir# (umræður utan dagskrár), SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:36]

Sighvatur Björgvinsson:

Stöðugar tilraunir einstakra útgerðarmanna til að sniðganga kjarasamninga við sjómenn og landslög með þeim hætti að láta sjómenn taka þátt í kvótaviðskiptum með þeim afleiðingum að umsamin kjör þeirra eru rýrð um háar fjárhæðir valda sívaxandi erfiðleikum í samskiptum aðila. Deilur þessar kunna nú að komast á annað og enn alvarlegra stig því svo virðist vera að samtök útvegsmanna beinlínis hvetji félagsmenn sína til að ganga gegn skýrum dómsniðurstöðum og veiti þeim leiðbeiningar um hvernig slíkt skuli gera.

Í máli sem Farmanna- og fiskimannasamband Ísland vegna Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðlendinga höfðaði gegn LÍÚ vegna útgerðar Sæbergs hf., þar sem yfirmaður á skipinu hafði verið látinn taka þátt í greiðslum fyrir aflakvóta í svonefndum tonn á móti tonni viðskiptum og aflahlutdeild hans lækkuð sem því nam, komst dómurinn að þeirri niðurstöðu þann 5. mars sl. að slíkar uppgjörsaðferðir brjóti í bága við ákvæði greinar 1.03 í kjarasamningi sjómanna og útvegsmanna þar sem skýrt sé talað um að hlutaskipti skuli miðuð við heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir aflann og þar á meðal við verðmæti þess skiptikvóta sem útgerð kunni að fá frá kaupanda í tonn á móti tonn viðskiptum. Félagsdómur taldi að uppgjörsaðferðir útgerðarmannsins væru ólögmætar og verður dómsniðurstaðan ekki túlkuð öðruvísi en svo að þessi aðferð til að láta sjómenn taka þátt í kvótaviðskiptum sé almennt óleyfileg og brot á kjarasamningum.

Í grein sem Jónas Haraldsson, lögfræðingur LÍÚ, skrifaði í Fréttabréf LÍÚ eftir að Félagsdómur féll mótmælti hann alfarið dómsniðurstöðunum eins og dómur hefði aldrei fallið. Hann lýsti afstöðu Félagsdóms sem ,,algerri bábilju``. Hann segir í grein sinni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hefði viðkomandi útgerð gert skriflegan fiskverðssamning við áhöfnina þar sem berum orðum hefði verið tekið fram að andvirði aflaheimilda fiskkaupandans væri hluti af umsömdu fiskverði og tillit tekið til þess við fiskverðsákvörðunina þá hefði með engu móti verið hægt að lesa út úr umsömdu fiskverði aðila eitthvað sem teldist vera þátttaka sjómanna í útgerðarkostnaði.``

Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en sem leiðbeiningu til útgerðarmanna um hvernig megi komast fram hjá efnislegri niðurstöðu Félagsdóms enda segir Jónas í lok greinar sinnar:

,,Niðurstaða mín er því sú til framtíðar séð að dómur Félagsdóms eigi ekki að hafa í raun áhrif til breytinga frá því sem var ef menn standa rétt að málum við ákvörðun fiskverðs eins og áður var nefnt.``

Með öðrum orðum að sé farið eftir leiðbeiningum hans sé unnt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum þrátt fyrir niðurstöðu Félagsdóms.

En fleiri dómstólar hafa fjallað um sambærileg mál en Félagsdómur. Þann 15. febr. 1996 féll í Hæstarétti dómur í máli sem skipverji á dragnótabát hafði höfðað gegn útgerðarmanni skipsins þar sem skipverjinn krafði útgerðarmanninn um tæplega 300.000 kr. vangreidd laun vegna kvótakaupa sem skipverjinn hafði verið látinn taka þátt í. Í áliti héraðsdóms Reykjaness sem hafði áður um málið fjallað, en Hæstiréttur staðfesti dómsniðurstöðu hans, segir m.a. að þó áhöfn bátsins hafi gefið yfirlýsingu um að hún samþykkti uppgjörsaðferðir útgerðarmannsins teljist hún á engan hátt bindandi því í grein 1.36 í kjarasamningi sjómanna og útvegsmanna segi að allir samningar milli útgerðarmanna og sjómanna sem fara í bága við kjarasamninga séu ógildir nema viðkomandi stéttarfélag hafi staðfest þá. Í umögn Hæstaréttar um málið er m.a. vísað til þess að útgerðarmaðurinn hafi ekki við uppgjör á skiptaverði aflans farið að lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, og þar með brotið lög auk brota hans á kjarasamningi.

Hæstv. sjútvrh., sem jafnframt er dómsmrh., tjáði sig um þessi mál með afgerandi hætti nú um sl. helgi þar sem hann hvatti aðra til að fara að einu og öllu að lögum og kjarasamningum. Í framhaldi af því og vegna þeirra málsatvika sem ég hef lýst hlýt ég að spyrja hann um hvort hann hyggist grípa til úrræða. Spurningar mínar til hans eru þessar:

1. Hvað getur ráðherra gert og hvað hyggst hann gera til að stöðva óleyfilega þátttöku sjómanna í kvótaviðskiptum?

2. Hver er afstaða hans til þess ef stéttarfélög sjómanna grípa til verkfallsaðgerða gegn þeim útgerðum sem gerast brotlegar við skýlaus ákvæði kjarasamninga sem banna þátttöku sjómanna í kvótakaupum?

3. Telur ráðherra koma til greina að hann höfði sjálfur opinbert mál gegn útgerðum sem brotið hafa gegn lögum um greiðslumiðlun og skiptaverðmæti samkvæmt áður ívitnuðum ummælum Hæstaréttar í málinu nr. 416/1994?