Viðskipti með aflaheimildir

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 13:40:56 (5994)

1997-05-09 13:40:56# 121. lþ. 120.95 fundur 321#B viðskipti með aflaheimildir# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:40]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur vakið athygli á máli sem hefur valdið verulegum erfiðleikum í íslenskum sjávarútvegi því að ljóst sýnist að í of mörgum tilvikum hafi sjómenn verið látnir taka þátt í kaupum á aflaheimildum gegn skýrum ákvæðum í kjarasamningum og lögum.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að spyrna við fæti í þessu efni eins og hv. þm. vita. Á grundvelli samninga milli sjómanna og útvegsmanna var á sínum tíma komið á fót með löggjöf sérstakri samstarfsnefnd til að úrskurða í álitaefnum. Síðar var með lögum og á grundvelli samkomulags aðila komið á fót sérstakri úrskurðarnefnd til þess að úrskurða í tilvikum þar sem ágreiningur hefur komið upp um fiskverð.

Eins og hv. þm. minntist á gekk nýlega dómur í Félagsdómi þar sem á afgerandi hátt var úr því skorið að greiðslur fyrir afla skuli koma til skipta og þar á meðal líka greiðslur í formi aflaheimilda. Ég taldi og tel að þessi úrskurður sé afgerandi og alveg einsýnt hver sú niðurstaða er og hvernig menn eigi að fara eftir henni.

Það er svo að ef aðilar efna ekki ákvæði vinnusamninga og kjarasamninga eru forsendur brostnar og þegar hv. þm. spyr hvort ég telji að það geti verið réttlætanlegt að leggja niður vinnu í þeim tilvikum þar sem samningar og lög hafa verið brotin um þetta efni, þá gilda þau almennu sjónarmið að fullnægi atvinnurekandi ekki skyldum sínum samkvæmt kjarasamningi og lögum þá geta þær aðstæður verið fyrir hendi að launþeginn sé í þeirri stöðu að vera leystur undan því að efna ákvæði þessara samninga af sinni hálfu. Ég er þeirrar skoðunar að það geti átt við í þessum tilvikum eins og ýmsum öðrum sem stöku sinnum hafa komið upp en sem betur fer ekki oft á síðari árum af þessu tagi.

Varðandi spurningu hv. þm. um hvort ráðherra sé reiðubúinn að höfða sjálfur opinber mál í tilvikum sem þessum þá eru aðstæður með þeim hætti samkvæmt íslenskum lögum að ákæruvald er í höndum ríkissaksóknara og í ákveðnum tilvikum í höndum lögreglustjóra. Þannig að hvorki sjútvrh. né dómsmrh. fara með ákæruvald og hvorugur ráðherrann getur þess vegna höfðað opinbert mál hvorki af þessu tagi né öðru. Það var sem sagt endanlega lagt niður árið 1961 að ákæruvald væri í höndum dómsmrh. þegar embætti ríkissaksóknara var stofnað. En þrátt fyrir þetta bauðst ég til þess á síðasta ári að hafa um það milligöngu sem sjútvrh. að koma málum frá hagsmunasamtökum sjómanna til rannsóknar hjá sýslumannsembættum og við höfum haft milligöngu um það í þó nokkrum tilvikum að beiðni samtaka sjómanna og þau mál eru nú, að ég hygg, ýmist á rannsóknarstigi hjá sýslumönnum eða hafa verið send ríkissaksóknara. Í einu tilviki hygg ég að sýslumaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að hafast að. En þó þetta sé ekki verkefni ráðuneytisins þá töldum við okkur rétt og skylt að reyna að liðsinna í þessu efni með því að hafa milligöngu um þessi atriði.