Viðskipti með aflaheimildir

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 13:45:52 (5995)

1997-05-09 13:45:52# 121. lþ. 120.95 fundur 321#B viðskipti með aflaheimildir# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:45]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að gengið sé eftir því að þau lög séu haldin sem í gildi eru um þetta efni og hlutur sjómanna varinn fyrir þessum útgjöldum útgerða því það eru engar forsendur fyrir því að velta þeim kostnaðarlið yfir á sjómenn. Ég minni á að vandinn í þessu máli er auðvitað fyrst og fremst framsalið sjálft sem gerir mönnum mögulegt að versla með veiðiheimildirnar og afla með því tekna. Útgerðarmenn hafa af því tekjur eða geta haft af því tekjur að framselja veiðiheimildir sínar og með sama hætti eru aðrir útgerðarmenn sem hafa af því kostnað og um það snýst málið að þeir vilja láta sjómenn bera hluta af þeim kostnaði. Ráðið hlýtur því að vera að líta á framsalið og draga úr því sem mest menn mega og draga úr þeirri hættu að kostnaður af þessu tagi velti yfir á sjómenn. Ég vek athygli á að þetta vandamál beinir sjónum manna að því að hugmyndir sem margir hafa haft hér uppi um verulegt veiðileyfagjald sem lagt yrði á útgerðina hlýtur að leiða til sömu niðurstöðu og það framsal sem nú er í gildi, að útvegsmenn munu freistast til að velta hluta af kostnaðinum sem þeir bera af veiðileyfagjaldi yfir á sjómenn og það mun leiða til harðra árekstra við hlutaskiptakerfið og sjómannastéttina alveg eins og þetta fyrirkomulag sem við búum við nú. Ég vil, herra forseti, vekja athygli á að menn mega ekki auka á vandann með tillögum sínum, heldur leitast við að draga úr honum.