Viðskipti með aflaheimildir

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 13:50:39 (5997)

1997-05-09 13:50:39# 121. lþ. 120.95 fundur 321#B viðskipti með aflaheimildir# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:50]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dóms- og sjútvrh. fyrir svörin. Ég vil aðeins benda á að það eru engar smáfjárhæðir sem hér eru í húfi. Í öðru því tilviki sem ég ræddi um í ræðu minni áðan er um það að ræða að tugum milljóna hafi verið haldið utan skipta. Það er bara eitt tilvik af mörgum sem fjallað hefur verið um. Ég vil líka taka fram út af því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að þó svo, og fyrir því liggur dómur Hæstaréttar, að áhöfn samþykki slíkt uppgjör þá er hún ekki bundin af þeirri samþykkt nema viðkomandi stéttarfélag hafi samþykkt þann gjörning. Þannig að það er líka niðurstaða Hæstaréttar sem er mjög athyglisverð. Veiðileyfagjald hefur ekkert með þetta mál að gera vegna þess að við erum að tala um kjarasamninga. Og kjarasamningar kveða mjög skýrt á um að sjómenn eigi ekki að taka þátt í útgerðarkostnaði. Það hefur verið staðfest af Hæstarétti og það skiptir engu máli í því sambandi hvort veiðileyfagjald er lagt á eða ekki. Kjarasamningarnir standa eftir sem áður algjörlega fyrir sínu.

Hæstv. dómsmrh. sagði mjög athyglisverðan hlut. Hann sagði raunverulega úr ræðustól að hann vísaði sjómönnum í svona tilvikum á þær lögmætu aðgerðir sem þeir gætu gripið til gagnvart þeim útgerðum sem brjóta á þeim kjarasamninga, þ.e. að efna til verkfalla. Hins vegar svaraði henn ekki einni spurningu minni sem var á þessa leið: Hyggst hæstv. ráðherra annaðhvort sem sjútvrh. eða dómsmrh., sjálfur grípa til einhverra aðgerða? Getur hann gripið til einhverra aðgerða eða hyggst hann grípa til einhverra aðgerða til að reyna að fylgja því eftir að lögum frá Alþingi sé framfylgt?