Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:50:20 (6013)

1997-05-09 14:50:20# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:50]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé óþarfi að tortryggja þessar breytingar sem hér eru lagðar til og farið var fram á við allshn. Ég tók fram áðan að þetta væri einungis ákvæði sem ætti að gilda í stuttan tíma og sagði reyndar í framsögu minni, með leyfi forseta:

,,Ákvæði þessu er aðeins ætlaður stuttur líftími, en í frv. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar sem lagt er til að afgreitt verði samhliða frv. þessu er gert ráð fyrir að ný ákvæði um starfsþjálfun verði sett í starfsreglur.``

Mat nefndarinnar er að þetta sé í lagi þar sem mælt er með þessu máli, komi engin sérstök andmæli fram gegn því nema af hálfu guðfræðideildar sem að sjálfsögðu geta verið skiljanleg sjónarmið. En við teljum sem sé óhætt að þetta verði lagt til. Og við teljum eðlilegt, þar sem það hafa komið í ljós vankantar á þessu fyrirkomulagi, að settar verði nýjar starfsreglur og að kirkjuþing komi að því máli þar sem við erum að mæla fyrir auknu sjálfstæði kirkjunnar í öðrum málum hér á hinu háa Alþingi.