Skipan prestakalla

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 14:51:51 (6015)

1997-05-09 14:51:51# 121. lþ. 120.11 fundur 241. mál: #A skipan prestakalla# (starfsþjálfun guðfræðikandídata) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:51]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er til umfjöllunar lagafrv. þar sem m.a. er lagt til að starfsþjálfun guðfræðikandídata verði stytt, verði tveir mánuðir í stað fjögurra áður. Ástæðan sem gefin er fyrir því að stytta þessa starfsþjálfun guðfræðikandídata er sú að kostnaður við starfsþjálfunina hefur farið fram úr áætlunum þar sem kandídatar eru helmingi fleiri en áður.

Mér finnst mjög mikilvægt að hlusta á skoðun þeirra sem hafa ábyrgðina á hendi. Það er guðfræðideild Háskóla Íslands sem sér um menntun guðfræðikandídata og þaðan koma mjög skýr skilaboð. Skilaboðin eru þau og þau eru afdráttarlaus, að þetta starfsþjálfunarskeið beri ekki að stytta. Þess vegna finnst mér það vera mjög vafasöm skilaboð sem hv. Alþingi gefur kirkjunni með þessari lagabreytingu þegar hún nú tekur þessi málefni yfir á sínar herðar á komandi mánuðum og væntanlega um alla framtíð.

Við skulum ekki gleyma því að prestsstarfið er mjög flókið starf, erfitt og margbrotið og það er mjög mikilvægt að prestar séu vandanum vaxnir þegar þeir koma til starfa. Presturinn er ekki aðeins leiðtogi í trúarlegum efnum, hann annast sálgæslu, félagsmálaráðgjöf ýmiss konar og hann er að fást við mannleg örlög. Því er mjög mikilvægt að hann sé vandanum vaxinn þegar hann kemur til starfa.

Þegar nú guðfræðideild Háskóla Íslands beinir þeim eindregnu tilmælum til Alþingis þar sem mjög er varað við því að stytta starfsnámið þá finnst mér að við þurfum að koma með haldbærari rök en fram eru sett af hálfu þeirra sem leggja til styttingu þjálfunarinnar, önnur en þau að kandídatar séu skyndilega orðnir of margir og sprengi allan fjárhagsramma. Það eru ekki rök í sjálfu sér, ef það er rétt að verið sé að rýra námið á þann hátt sem guðfræðideild Háskóla Íslands telur óásættanlegt. Mér finnst því, áður en þessari umræðu lýkur, að við þurfum að fá fram frekari rök af hálfu þeirra sem ætla að samþykkja þetta frv. og ég auglýsi eftir þeim rökum.