Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:14:45 (6025)

1997-05-09 15:14:45# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki mikil aðgerð til bóta í þessu máli að flytja prest frá Bergþórshvoli í Skálholt þegar sóknirnar eru skildar eftir. Sá prestur sem mun sitja í Skálholti og sinna þar prestsverkum þjónar mjög fáum íbúum og það hafa ekki komið fram rök fyrir því að það þurfi heila stöðu prests til að sinna því verkefni. Ég spyr: Hví var þá ekki hægt að láta þann prest sem á að sitja í Skálholti þjóna Landeyjunum áfram? Hvers vegna er nauðsynlegt að skipa prest til að sitja á Bergþórshvoli fram til ársins 1999? Þannig að það er enginn sparnaður, þrátt fyrir að hæstv. dómsmrh. hafi látið að því liggja hér áðan að svo væri, með þessum flutningi. Þvert á móti, svo er ekki. Það er verið að koma í veg fyrir sparnað, sem er gert ráð fyrir í núgildandi lögum, með þessari aðgerð.

Og hvað það varðar að hér sé um að ræða umdæmi fornra biskupsstóla (ÖS: Gleymdu ekki Þórði Þorlákssyni.) þá ítreka ég bara það viðhorf mitt að það er þá ástæða til að jafna umdæmin. Ég man nú ekki hvernig umdæmi þessara stóla voru til forna en mig minnir að Norðurland og Austurland hafi gjarnan legið saman undir sama biskup. Hafi svo ekki verið þá skiptir það út af fyrir sig ekki máli. Það er vel hægt að breyta umdæmi Hólabiskups þannig að hann sinni stærra umdæmi og fleira fólki en nú er, ef það er vandamálið. Hitt er svo annað mál, sem ég er ekki nægilega kunnugur en hefur svo sem ekki verið farið yfir, hversu viðamikil verkefni vígslubiskups yfir höfuð eru. En það er út af fyrir sig ástæða til þess að athuga það.