Skipan prestakalla og prófastsdæma

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 15:48:16 (6039)

1997-05-09 15:48:16# 121. lþ. 120.12 fundur 591. mál: #A skipan prestakalla og prófastsdæma# frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[15:48]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þegar þingnefndir flytja mál er ærin nauðsyn fyrir þá sem fá málið að greinargerð sé á þann veg að hægt sé að taka afstöðu til málsins út frá henni. Þegar það brestur versnar mjög málið. Hér er hægt að taka afstöðu til eins atriðis út frá þeirri greinargerð sem liggur fyrir, þ.e. að það blasir við sem staðreynd vegna uppgefins fjölda á íbúum í Grafarvogi að það hlýtur að vera meira verk en svo að einn prestur geti sinnt því. Það blasir við sem staðreynd. Hins vegar hefði ég talið sanngjarnt að þegar verið er að meta aðra hluti, t.d. hvort eigi að leggja niður sóknarprest á Bergþórshvoli og eins hvað beri að gera í Skálholtsprestakalli, að hafa hér upplýsingar. Fyrst hægt var samkvæmt manntali að hafa kontról á íbúafjölda í Grafarvogi, sem er nú ört vaxandi, hvaða ástæður eru til þess að ekki er hægt að hafa sambærilegar uppýsingar í greinargerð varðandi hin atriðin? Hvaða feluleikur er þetta? Af hverju er ekki hægt að hafa það hér inni. Eins hitt að ég held að það sé almennt viðurkennt að menn vilja gæta jafnræðis milli Hóla og Skálholts. Menn vilja þess vegna að eins sé staðið að í Hólastifti og í Skálholti. Þess vegna finnst mér óeðlilegt að þegar svona frv. kemur fram þá liggi þessar upplýsingar ekki fyrir í greinargerðinni.

Mér þætti vænt um það ef flm. mundu fyrir afgreiðslu málsins við 3. umr. koma með þessar upplýsingar þannig að fyrir liggi hvernig að þessum málum er staðið hjá vígslubiskupinum á Hólum. Hann þarf einnig að standa í ferðalögum en hvaða skyldur hefur hann gagnvart prestsþjónustu og er þá jafnræði á milli Skálholtsstaðar og Hóla eftir að þessi aðgerð hefur verið framkvæmd? Og eins hitt: Hvaða mannfjölda er verið að tala um á hinum tveimur stöðunum því eins og hér kom fram hljóta ákvarðanir varðandi þessa hluti fyrst og fremst að byggjast á því hvaða fjöldi er til staðar í viðkomandi sókn? Eins og menn vita eru þessar fjórar sóknir eitt sveitarfélag. Ég get ekki tekið afstöðu til þessa máls af því ég hef ekki þær upplýsingar sem ég þyrfti að hafa. En ég vil ekki á nokkurn hátt verða til þess að tefja að það hafi sinn gang en mér finnst að þegar frv. er flutt af nefnd þá sé nauðsynlegt að samræmis sé gætt í upplýsingagjöf til þingsins þannig að menn geti út frá greinargerðinni tekið afstöðu til málsins.