Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:32:01 (6045)

1997-05-09 16:32:01# 121. lþ. 120.13 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:32]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég var búinn að óska eftir orðinu en hins vegar mun ég ekki hafa orð mín mjög mörg því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert mjög vel grein fyrir sameiginlegum sjónarmiðum okkar sem stöndum að minnihlutaálitinu.

Í fyrsta lagi vekjum við athygli á að markmið með frv. til laga um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu er að auka tryggingavernd og öryggi viðskiptamanna fasteignasala. Það skýtur skökku við að í brtt. sem kemur frá meiri hlutanum er dregið úr þeirri tryggingavernd vegna þess að málum hefur verið þannig háttað að skaðabótaskylda fasteignasala hefur náð til ásetningsbrota. Samkvæmt þeim tillögum sem meiri hluti allshn. leggur til er ráðgert að fella þetta niður eða breyta þessu og röksemdafærslan er sú að þar sem lögmenn höndli einnig með fasteignir en séu ekki með tryggingar af þessu tagi hjá sér, þá verði að samræma löggjöfina þannig að þeir sitji allir við sama borð en nefndin velur hins vegar þann kostinn að samræma niður á við, þ.e. í stað þess að láta alla vera skaðabótaskylda gagnvart ásetningsbrotum er tekin ákvörðun um að enginn verði það. Með þessu móti er dregið úr vernd viðskiptamanna fasteignasala.

Ég svo sem skil það sjónarmið mætavel að innan þeirra stétta, fasteignasala og lögmanna, finnist þeim það ekki réttmætt og réttlátt að þeir þurfi að tryggja sig gagnvart einhverjum óheiðarlegum mönnum í sinni stétt. En fyrir notandann, fyrir viðskiptavininn skiptir það öllu máli að hann njóti fullrar tryggingar. Þetta er fyrsta atriðið sem við leggjum áherslu á að í frv. sem á að tryggja vernd viðskiptamanna fasteignasala, þá búi löggjafinn svo um hnúta að sú vernd verði bætt en ekki úr henni dregið eins og meiri hluti allshn. er í rauninni að leggja til.

Í öðru lagi, eins og kom fram í ágætu máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir, vekjum við athygli á upphæðunum sem kveðið er á um í 5. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Trygging skal nema minnst 5 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers tryggingartímabils skal nema minnst 10 millj. kr.``

Í svari Vátryggingaeftirlitsins við fyrirspurnum frá minni hlutanum um hvort vátryggingarfjárhæðir frv. séu að mati eftirlitsins fullnægjandi til að tryggja fullkomlega það tjón sem fasteignakaupendur eða -seljendur geta orðið fyrir í fasteignaviðskipum kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Fullvíst má telja`` segir Vátryggingaeftirlitið ,,að umræddar fjárhæðir tryggja ekki fullkomlega það tjón sem fasteignakaupendur eða -seljendur geta orðið fyrir af völdum fasteignasala. Gera má ráð fyrir því að þær dugi í flestum tilvikum.``

Þetta er annað atriðið sem við vekjum athygli á. Það eru vátryggingarfjárhæðirnar, þær eru of lágar.

Í þriðja lagi hefðum við kosið að nánar væri kveðið á um skyldur fasteignasala til að skýra frá forsendum kaupa og tökum undir gagnrýni sem fram hefur komið frá Neytendasamtökunum í því efni, en Neytendasamtökin hafa bent á að mjög mikilvægt sé að skyldur fasteignasalans séu skýrar um ítarlega upplýsingagjöf, um ástand eigna, fyrirhugaðar eða aðkallandi viðgerðarframkvæmdir og aðra þætti sem máli skiptir að liggi greinilega fyrir áður en gengið er frá bindandi fasteignakaupum. Þetta er nokkuð sem liggur í rauninni í augum uppi og er ekkert annað en heilbrigð skynsemi að mikilvægt er að frá þessum þáttum sé rækilega gengið í lögum.

Síðan er það atriðið sem fékk töluverða umræðu í nefndinni og það er söluþóknun fasteignasala. Í núgildandi lögum er kveðið á um 2% hámarksþóknun í fasteignaviðskiptum og samkvæmt þeim brtt. sem hér liggja fyrir frá meiri hluta allshn. er gert ráð fyrir að fella þetta hámark brott. Í fyrstu sögðu margir þeir sem komu fyrir nefndina að þetta mundi án efa ekki verða til að auka tilkostnaðinn að gjaldið yrði ekki meira í reynd. Hins vegar mundi þetta kalla á meiri samkeppni. Þetta stangast nú örlítið á. Ef afnám þessa þaks verður ekki til þess að hækka þóknunargjaldið þá hefði maður haldið að samkeppnin gæti farið fram undir því þaki, innan 2%. En síðan hefur komið fram, eins og rækilega var bent á í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan, að þegar þessar upphæðir eru skoðaðar í fasteignaviðskiptum á Norðurlöndum eða þar sem þak af þessu tagi er ekki fyrir hendi, þá eru þessar upphæðir iðulega miklu hærri og geta orðið verulega háar. Minni hluti nefndarinnar óskaði eftir því að Samkeppnisstofnun gerði athugun á samkeppnisaðstæðum á fasteignamarkaði og reyndi að rökstyðja eða færa fram rök með og á móti afnámi 2% hámarksþóknunar en það virðist hins vegar hafa farið lítið fyrir sjálfstæðri athugun stofnunarinnar og afstaða hennar virðist byggja að verulegu leyti á umsögn Félags fasteignasala sem hefur lagt ofurkapp á að þetta 2% hámark verði numið brott.

Þetta eru ástæðurnar, hæstv. forseti, fyrir því að við þrír þingmenn í allshn., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og sá sem hér mælir vildum ekki skrifa undir álit meiri hluta allshn. heldur skilum minnihlutaáliti og hef ég gert grein fyrir hvers vegna.