Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:53:03 (6049)

1997-05-09 16:53:03# 121. lþ. 120.13 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:53]

Frsm. minni hluta allshn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. þarf ekki að minna mig á að hér sé þrígreining ríkisvaldsins. Mér finnst kannski oftar að við í hv. allshn. þurfum að minna hv. meiri hluta á að hér ríki þrígreining ríkisvaldsins vegna þess að það má yfirleitt ekki breyta stafkrók nema framkvæmdarvaldið, ráðherrarnir, samþykki það sem kemur fyrir Alþingi þannig að það væri frekar meiri hlutans að reyna að muna eftir þrígreiningu ríkisvaldsis.

Ég er ekkert að draga úr mikilvægi lögmannastarfanna eða endurskoðendanna. Ég var að vísa til þess hve mikilvæg þjónusta fari þarna fram sem skiptir miklu máli að vel sé gengið frá varðandi tryggingar sem eru fasteignasalarnir og lögmennirnir reyndar líka vegna þess að margir lögmenn stunda líka fasteignaviðskipti. Og ef það eru einhver rök, eins og hv. þm. nefnir, að það hefði átt að bíða eftir heildstæðri löggjöf, af hverju í ósköpunum lá svo á að afnema þá tryggingavernd sem þó er í lögunum eða hefur gilt um fasteignasalana? Af hverju mátti þetta þá ekki bara bíða þeirrar heildarendurskoðunar þannig að við sæjum þá hvað tæki við?

Mér finnst, herra forseti, að hv. formaður nefndarinnar hafi ekkert bætt sinn málflutning eða hafi neitt haldbært sér til málsbóta að draga úr neytendavernd í fasteignaviðskiptum.