Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:13:38 (6054)

1997-05-09 17:13:38# 121. lþ. 120.14 fundur 487. mál: #A umferðarlög# (ölvunarakstur, vátryggingarfjárhæðir o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:13]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það út af orðum hv. þm. að eftir að málið hefur verið skoðað mjög ítarlega í allshn. og farið hefur fram málefnaleg umræða um ýmis atriði og ýmsar tillögur í þessu máli, þá finnst mér það nokkuð þreytandi að alltaf sé talað um afsakanir formanns allshn. Þetta er málefnaleg umræða sem hér á sér stað, byggð á þeim rökum og þeim gögnum sem hafa komið fram í umræðu í allshn. um þetta mál.

Ég sagði áðan í ræðu minni, og það fer ekkert á milli mála og ég hef a.m.k. sagt það tvisvar, að Vátryggingaeftirlitið er vissulega á þeirri skoðun að það hefði verið miklu betra að samþykkja þessar tillögur strax eins og þær lágu fyrir í frv. Hins vegar skilja þeir líka þörfina á endurskoðun og samræmingu á fleiri ákvæðum umferðarlaganna. Þess vegna segir í þessari umsögn, sem ekki vannst tími til, virðulegi forseti, að vitna í áðan, og ég vil fá að gera hér og ítreka:

,,Í ljósi frestunar á breytingu vátryggingarfjárhæðar styður eftirlitið tillögu þess efnis að endurskoðun fari fram á nefndum kafla umferðarlaga. Leggja ber áherslu á að endurskoðun taki ekki lengri tíma en nauðsyn krefur og að nýjar vátryggingarfjárhæðir megi t.d. gilda frá næstu áramótum.``

Ég tel rétt að þetta komi hér fram, virðulegi forseti.