Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:23:42 (6058)

1997-05-09 17:23:42# 121. lþ. 120.15 fundur 61. mál: #A umferðarlög# (hlífðarhjálmar fyrir hjólreiðar) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi. Ég hygg að hv. 1. flm. málsins hafi flutt þetta frv. í ein fjögur skipti og ég hef a.m.k. í einhver af þeim skiptum þegar þetta mál hefur komið til umræðu lýst þeirri afstöðu minni að ég væri eindreginn stuðningsmaður þess að stefnt skyldi að því að lögleiða notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar, en það væri hins vegar hyggilegt að gera það þannig að það væri í takt við bæði áróður, fræðslu og kynningu sem þyrfti að vera undangengin og það þyrfti að vera orðin sú notkun á þessum tækjum í landinu að raunhæft væri að lögleiða það með einhverjum tilteknum aðdraganda þannig að ekki væri verið að búa til ólögmætt ástand í þeim skilningi að lögfesting notkunar hlífðarhjálma gengi í gildi áður en forsendur væru fyrir því, áður en hjálmaeign væri nægilega almenn og forsendur fyrir því að fólk gæti uppfyllt lagaskylduna. Þess vegna hef ég lagst gegn því að frv. í því formi að lögfesta þetta með kannski tiltölulega skömmum aðdraganda næði fram að ganga.

Ég átti á sínum tíma sæti í sérstakri nefnd sem undirbjó þá framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi. Þá var þetta mál ítarlega tekið fyrir og það varð niðurstaða nefndarmanna þar, þeirra flestra a.m.k., og þeirra sérfræðinga sem að þessu unnu með nefndinni að það bæri að stefna að þessari lögleiðingu en það þyrfti að undirbúa hana vel. Það þyrfti að reka stífan áróður fyrir notkun þessara öryggistækja og reyna að stuðla að því að notkunin yrði útbreidd, sem allra flestir ættu þessi tæki, og gefa síðan í kjölfar þess einhvern tiltekinn aðlögunartíma að því að lögleiðingin gengi í gildi.

Hér er ekki alveg sömu hlutum saman að líkja og átti við þegar notkun öryggisbelta var lögleidd á sínum tíma því að eins og að því var staðið þá, þá hafði slíkur búnaður verið staðalbúnaður í bifreiðum um árabil og vandinn sneri eingöngu að þeim hluta bifreiðaflotans, eldri árgerðum, sem ekki uppfyllti þá skyldu, enda var það auðleysanlegt með tiltekinni aðlögun. En notkun svona lausra öryggistækja, eins og hlífðarhjálmar eru eðli málsins samkvæmt, ótengdir því tæki sem þeir notast við, þ.e. hjóli, lýtur allt öðrum lögmálum. Það liggur í hlutarins eðli að það er ekki mjög raunhæft að setja lög um að allir skuli nota tæki sem eru þá ekki enn í eigu nema tiltölulega lítils hluta þeirra sem hjólreiðar stunda. Að vísu er augljóst mál öllum þeim sem fara hér um götur og torg að notkun hjálma fer hratt vaxandi og það er vel og þar af leiðandi styttist væntanlega í að raunhæft verði að gera kröfur um að þessi öryggistæki verði lögleidd.

Aðeins eitt í viðbót, herra forseti, sem ástæða er til að minna á og það er að um tíma var nokkurt hik á mönnum sums staðar við að stíga þetta skref til fulls ósköp einfaldlega vegna þess að búnaðurinn sjálfur, þ.e. hjálmarnir, voru ekki gallalausir miðað við þær kröfur sem verður að gera til slíkra tækja. Því miður var það svo að ýmsar eldri gerðir af hlífðarhjálmum, sem ekki höfðu öryggislása á ólum, höfðu orðið þess valdandi að af því hlutust slys þegar börn festu hjálmana að leik í leiktækjum og þannig gátu þessi annars ágætu og mjög svo þörfu öryggistæki í raun og veru snúist upp í andhverfu sína við vissar aðstæður og orðið beinlínis slysavaldar. Þetta hefur tekist að leysa með því að innleiða sérstaka öryggislása á ólarnar sem opna hjálminn eða opna lásinn ef þannig aðstæður skapast.

Ég tel í sjálfu sér að afgreiðsla hv. allshn. sé eftir atvikum eðlileg og treysti hæstv. ráðherra prýðilega til þess að meta það við hvaða aðstæður eða hvenær öllu heldur kominn sé tími til að hefja reynslutíma eða reynslunotkun af því tagi sem afgreiðsla nefndarinnar felur í sér. Rökstuðningur hennar fyrir að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar er sá að hvetja hæstv. ráðherra til að nota þá heimild sem er í lögum þegar hæstv. ráðherra væntanlega metur það tímabært.