Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 17:37:15 (6065)

1997-05-09 17:37:15# 121. lþ. 120.15 fundur 61. mál: #A umferðarlög# (hlífðarhjálmar fyrir hjólreiðar) frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[17:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Sú gagnrýni sem kemur fram hjá þingmönnum er fullkomlega réttmæt og það er ekki hægt annað en taka undir hana. Ég verð að viðurkenna að ég hafði hugsað mér að reyna að beita mér fyrir því að samkomulag yrði gert um hvernig við lykjum fundi í dag þannig að ég var að bíða eftir að ná tali af mönnum til að ræða þau mál. Hins vegar er það svo að þegar við ræddum í fyrradag um dagskrá þessa fundar í dag hjá forseta var rætt um að vera ekki lengur á þessum föstudegi en til kl. 7. En sú vitneskja sem birtist í því sem nú hefur komið fram, að heilu þingflokkarnir fari af vettvangi, úr bænum og telji að nægilegt sé að setja einn, tvo, þrjá á vakt til að svara fyrir málin, það er fullkomlega óásættanlegt. Forseti nefnir að ráðherra málaflokksins hér sé viðstaddur. Það er vissulega góðra gjalda vert þó oft séu deildar meiningar um það hvort menn kalli eftir ráðherranum við 2. umr. eður ei.

En ég bendi á annað. Staðið hefur til að taka mjög stór mál úr félmn. ef mál hefðu gengið hraðar fyrir sig í dag og hér hefur á köflum í dag verið einn þingmaður úr hinum stjórnarflokknum, varaformaður félmn. er ekki á staðnum í dag svo að mér sé kunngt um, þannig að það er fullkomlega óviðunandi fyrir okkur að taka stór mál til umræðu og hippsum happs hverjir eru hér til að ræða við okkur.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá stutt fundarhlé og fund með forseta um það hvernig eigi að ljúka þessum fundi. Það er engin ástæða til að það fólk, sem duglegast er að sitja þingfundi með öll helstu mál sem hér eru rædd og tekin til afgreiðslu, sitji hér fram til kl. 7 á föstudegi á meðan heilu þingflokkarnir hverfa á braut til annarra viðfangsefna.