Staða þjóðkirkjunnar

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 18:15:08 (6072)

1997-05-09 18:15:08# 121. lþ. 120.9 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[18:15]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú illt að hafa bara tvær mínútur til andsvara en ég þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni hjartanlega fyrir hans ágæta mál og gjarnan vildi ég eiga hér orðastað við hann töluvert fram á kvöldið. Því miður gefst ekki tími til þess. En ég nefndi hér séra Geir Waage. Ég gerði reyndar skyssu að minnast á hann því að þá held ég að hv. þm. hafi beðið um orðið. (Gripið fram í: Nei það var löngu áður.).

Um kirkjuleg málefni eru margir kirkjunnar menn fróðir. Hins vegar var það um kirkjujarðirnar sem ég hygg að séra Geir Waage hafi mest um vélað á undanförnum árum og veit orðið töluvert um þær.

Ég tók hins vegar í máli mínu í gær aðeins dæmi þegar ég nefndi 6--8 milljarða sem hugsanlegt væri að kirkjujarðirnar væru að dýrleika. Ég veit ekki töluna. Ég held að enginn viti hana nákvæmlega núna, enda er þetta eins og hv. þm. sagði sameiginleg niðurstaða nefndar ríkis og kirku sem komst að því að eðlilegt væri að ljúka samningum frá 1907 án þess að fara nákvæmlega ofan í hann, sem sagt að gera lyktir á málið án þess að velta því fyrir sér upp á krónu og aura hvoru megin væri skuld og hvoru megin hagnaður.

Ég get þess aðeins af því að núna í vikunni var seldur svolítill hluti af kirkjujörð, einni af þessum tæplega 900 kirkjujörðum, líklega svona 1/20 af jörðinni, að hann fór á 140 millj. á þriðjudaginn var, þ.e. lóðin undir Vífilsstaðaspítala þannig að sumt er verðmætt og annað ekki af þessum jörðum. En ég tek undir það með hv. þm. að þetta er allt gert í fullum vinskap milli ríkis og kirkju og ég hygg að það sé báðum aðilum til góðs.