Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 10:49:50 (6079)

1997-05-12 10:49:50# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[10:49]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst nota tækifærið og þakka umhvn. fyrir vinnuna við frv. og að það skuli vera komið til 2. umr. með athugasemdum og breytingum sem mér heyrist á máli hv. framsögumanns minni hlutans að út af fyrir sig kunni að vera bærileg samstaða um þær breytingar sem lagðar eru til og minni hlutinn telji þær til bóta þó hins vegar séu gerðar athugasemdir eins og fram kom í mál hv. framsögumanns við það að málinu skuli ekki frestað.

Ég vil aðeins út af því segja að ég tel mjög mikilvægt fyrir stofnunina að ná þessu frv. fram og afgreiða málið og ná fram nýjum lögum um landmælingar og kortagerð. Ég hef átt viðtöl við fulltrúa stofnunarinnar um þau mál. Hitt er líka rétt sem kemur fram hjá hv. framsögumanni að önnur nefnd er að störfum en sú sem gerði tillögur um það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu og fjallar hún um aðra þætti sem tengjast mjög landmælingum en eru þó ekki þess eðlis að ég álíti að það eigi að hafa áhrif á framgang þessa frv. Ég hef rætt við fulltrúa úr þeirri nefnd um viðhorf þeirra í því efni og skýrt þeim frá því að ég telji nauðsynlegt að þetta frv. verði nú að lögum. Ég hef ekki fengið slík andmæli hjá nefndarmönnum að þeir telji það óþægilegt eða til baga fyrir störf þeirrar nefndar. Þó að hún eigi að skila, eins og segir í skipunarbréfi, áliti sínu fyrir 1. október nk., þá þekkjum við það nú og vitum að nefndarstörf af þessu tagi vilja oft dragast. Síðan á eftir að fjalla um málið í ráðuneyti og fara yfir það áður en það kemur inn í þing þannig að það hlýtur að vera skynsamlegra að afgreiða þetta mál núna og taka síðan það álit sem væntanlegt er frá fjarkönnunarnefndinni þegar það liggur fyrir til skoðunar og gera breytingar á lögunum í framhaldi af því ef þörf er á, ef þær tillögur geta ekki fallið að lögunum eins og þau eru eftir meðferð þingsins nú ef frv. verður samþykkt.