Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:12:30 (6083)

1997-05-12 11:12:30# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:12]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að auðvitað er það og má kannski segja að sé eilíft áhyggjuefni að velta fyrir sér fjárveitingum til opinberra stofnana og hversu vel þær eru í stakk búnar til að gegna sínu hlutverki. Það er glíma sem við þekkjum sem erum búin að sitja lengi á þingi og henni er nú sjálfsagt ekki lokið. En þetta er auðvitað ein af þeim stofnunum sem mikilvægar eru og þarf að reyna að búa sem allra best að fjárhagsramma og starfsramma hennar að öðru leyti.

Hv. þm. spurði um afstöðu mína til brtt. meiri hlutans. Þær hafa verið gerðar í samráði við mig og fulltrúa ráðuneytisins þannig að það er að sjálfsögðu ekkert í þeim breytingum sem ég er andvígur. Auðvitað geta verið eitthvað misjafnar áherslur eins og gengur. Ég hef marglýst því yfir við umræður um þau frv., sem ég hef lagt fram, að ég vil eiga sem best samstarf við nefndir um framgang þeirra og taka tillit til þeirra sjónarmiða og skoðana sem þar kunna að koma fram enda er þetta auðvitað löggjafarstofnunin sem á að segja sitt lokaorð um það hvernig lögin líta út þó að ríkisstjórn og ráðherra leggi þau fram í frumvarpsformi. Ég sé ekki að stórvægilegar breytingar séu gerðar á hlutverki stjórnar en þó er tekið tillit til þeirra áherslubreytinga sem hafa orðið í því efni. Auðvitað má velta fyrir sér hvort opinberar stofnanir eigi yfir höfuð að vera með stjórn eða ekki og móta í því ákveðna stefnu sem hefur nú ekki fengist skýrt sett fram.

Varðandi hugmyndir um flutning stofnunarinnar þá eru þær óbreyttar af minni hálfu. Það er unnið að því verkefni af fullum krafti. Að störfum er framkvæmdanefnd sem fylgir því verkefni eftir. Það er unnið að hönnun húsnæðis sem hefur verið tekið á leigu á Akranesi fyrir starfsemi stofnunarinnar. Starfsfólkið fékk góðan umþóttunartíma til þess að ákveða hvort það vildi flytja með stofnuninni eða starfa við hana áfram án flutnings. Það skal hafa gert það upp við sig fyrir lok þessa árs þannig að enn er nokkur tími til þess. Það er verið að móta reglur um hvernig og hvaða aðstoð hið opinbera veitir því fólki sem annaðhvort flytur eða heldur áfram að starfa við stofnunina þannig að þær leikreglur og sú þátttaka af hálfu hins opinbera er í mótun.

Að lokum mótmæli ég því sem kom fram hjá hv. þm. að engar áætlanir séu uppi af hálfu stjórnvalda um að flytja stofnanir á milli landshluta eða flytja opinberar stofnanir til. Það er margítrekað bæði í stefnu stjórnmálaflokka og núverandi ríkisstjórnar.