Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:15:20 (6084)

1997-05-12 11:15:20# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:15]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta hefði nú gjarnan mátt vera eitthvað skýrara hjá hæstv. ráðherra sem velur að veita andsvar í þessu formi og hefur kannski ekki ástæðu til að gefa skýrari svör við því sem hér var óskað eftir að fram kæmi.

Ég spurði hæstv. ráðherra um það hvernig horfurnar væru í sambandi við það starfsfólk sem nú vinnur hjá Landmælingum Íslands. Hver er staðan? Hvaða vitneskja liggur fyrir um hversu margir starfsmenn ætli að fylgja þessari stofnun á nýjan stað? Hvað getur ráðherra um það sagt? Fari svo að fáir flytji með, hvaða horfur eru á því að þessi starfsemi geti orðið burðug á nýjum stað?

Í sambandi við það að ég hafi sagt að engar áætlanir væru um flutning ríkisstofnana þá sagði ég ekkert í þá veru. Ég gagnrýndi hvernig á þeim málum er haldið, flausturslega og án þess að Alþingi komi að þeim og taki ákvarðanir um þau áður en einhverjir hæstv. ráðherrar taka pólitískar ákvarðanir um að skáka til stofnunum af lítilli fyrirhyggju eins og mér virðist að hér hafi verið gert. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er hinn byggðapólitíski ávinningur af þeirri aðgerð sem hér er verið að ráðast í, að skáka til, innan höfuðborgarsvæðisins nánast að segja, ríkisstofnun af þessum toga?

Virðulegur forseti. Varðandi hlutverk stjórnar og spurninguna um stjórn eða ekki stjórn --- ef það er stjórn yfir stofnun þá verður hún að hafa skilmerkilegt og afmarkað hlutverk þannig að þeir sem stjórn skipa finni sig í því að sinna því. Ef ekki er höfð stjórn yfir stofnun verður að efla viðkomandi ráðuneyti þannig að það sé fært um að stýra og halda uppi tengslum við viðkomandi stofnun. En það skortir nú heldur betur á að þannig sé haldið á málum, bæði í umhvrn. en einnig víðar, að ráðuneytin séu í rauninni þess umkomin að stýra þeirri starfsemi sem fram fer í stofnunum undir þeirra stjórn.