Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:17:50 (6085)

1997-05-12 11:17:50# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:17]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að hafi ég misskilið ummæli hv. þm. um stefnumótun í sambandi við flutning stofnana þá bið ég einfaldlega afsökunar á því og árétta það sem ég sagði áðan að það eru margendurteknar og ítrekaðar ályktanir um það af hálfu Framsfl. og í stefnumótun hans og ég hygg að það megi finna í stefnumótun trúlega allra flokka þótt ég hafi ekki flett því upp sérstaklega, a.m.k. ekki nýlega, og eins í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar, að leita leiða til að flytja til opinberar stofnanir. Um það mál höfum við rætt hér áður og afstöðu mína til þessarar ákveðnu stofnunar og það að ég telji að hún geti starfað annars staðar en í Reykjavík. Ég tel að af flutningi af þessu tagi séu vissulega byggðapólitísk áhrif og minni á ályktanir frá sveitarfélögum, jafnvel þótt þau liggi nærri höfuðborginni sjálfri, hvort heldur það er Akranes, Keflavík, Selfoss eða önnur byggðarlög hér í kring sem hafa sýnt áhuga á að slíkir flutningar væru kannaðir ítarlega. Ég minni á nál. nefndar, sem starfaði að vísu í umboði og í tíð fyrri ríkisstjórnar, um flutning opinberra stofnana og þar á meðal þeirrar sem hér er til umræðu. Þannig að ég ítreka þetta viðhorf mitt.

Varðandi síðan aftur spurninguna um horfur á flutningi starfsfólks þá endurtek ég það sem ég sagði áðan að það er fyrir lok þessa árs sem starfsfólk á að hafa gert upp hug sinn. Þegar hafa orðið nokkrar starfsmannabreytingar hjá stofnuninni á undanförnum vikum og mánuðum þar sem ráðið hefur verið nýtt fólk sem er fullljóst um hvað fram undan er í starfsemi stofnunarinnar, það gerir sér ljósa grein fyrir því þegar það ræður sig. En ég bind auðvitað vonir við það enn og nefndi það áðan og treysti því að meiri hlutinn af hinu ágæta starfsfólki stofnunarinnar haldi áfram að vinna við hana þrátt fyrir að hún verði flutt til, hvort sem það býr áfram hér á höfuðborgarsvæðinu eða flytur með stofnuninni.