Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:20:11 (6086)

1997-05-12 11:20:11# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem nú fer fram tengt málefnum Landmælinga Íslands og flutningi þeirrar stofnunar er athugun mála sem átti að fara fram áður en ákvörðun væri tekin. Það á að vera þáttur í athugun á því að dreifa starfsemi á vegum ríkisins að vanda þar undirbúning þannig að menn átti sig á við hvað er að fást og einnig að tillögur liggi fyrir um hvernig á skuli halda gagnvart starfsfólki. Nú segir hæstv. ráðherra okkur að verið sé að vinna að því að móta slíkar tillögur. Hvers konar handarbakavinnubrögð eru þetta? Þetta gengur að sjálfsögðu ekki. Og hvaða vit er í því að ætla að halda þannig á málum að ein ríkisstofnun sé tekin og flutt á kjörtímabili af handahófi samkvæmt geðþóttaákvörðunum einstakra ráðherra? Hvaða úrlausn er það í sambandi við byggðamál í landinu að halda þannig á málum?

Spurningin um flutning á ríkisstarfseminni hlýtur að lúta að því að koma upp þjónustustarfsemi á vegum ríkisins svæðisbundið í landinu þar sem verkefni liggja fyrir og draga úr mannahaldi í miðstöðvum höfuðborgarinnar að sama skapi. Það eru áherslurnar sem átti að leggja fyrir lifandi löngu í þessu máli, en ekki sýndarvinnubrögð sem eru kannski til verra en einskis í ýmsum greinum eins og hér er um að ræða, vitnað til tillagna nefndar á vegum ríkisstjórna. Ég efast um að það hafi verið nokkur tillaga þar um að flytja Landmælingar Íslands upp á Akranes. Ekki man ég eftir því. Ég held að það hafi verið eitthvað annað sem átti að fara með þá stofnun. (Gripið fram í: Var það ekki á Selfoss?) Þannig að það er nú lítið í að leita og sýnir enn betur flaustrið sem er á þessum vinnubrögðum af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar, að svo miklu leyti sem hún hefur lagt nafn sitt við þetta í heild.