Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:31:05 (6090)

1997-05-12 11:31:05# 121. lþ. 121.9 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þetta frv. sem hér er komið til 2. umr. um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða er afgreitt samhljóða frá umhvn. þingsins. Ástæða er til að ítreka stuðning við þetta mál og ánægju með að það skuli vera komið á lokastig í afgreiðslu Alþingis. Hér er um nýja stofnun að ræða sem á að fjalla um svið sem mjög brýnt er að Íslendingar sinni í auknum mæli og eigi um það samvinnu og samstarf við aðrar þjóðir sem norðurslóðamálefni varða öðrum fremur. Þó að hér sé auðvitað um mál að ræða sem varða alþjóðasamfélagið allt þá eru það eðlilega þær þjóðir sem næst búa norðurslóðum sem láta sig það varða. Ég ræddi þetta við 1. umr. eins og fleiri og sé ekki ástæðu til að fara hér mörgum orðum um mál sem samkomulag er um af hálfu umhvn.

Ég vil þó nefna að þær breytingar sem gerðar eru og samstaða er um að gangi fram eru mótaðar af meiri hluta í nefndinni, vafalaust í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti umhverfismála. Þar er einn þáttur sem er álitaefni hvernig á er haldið og ég hefði út af fyrir sig ekki lagt til breytingar á frv. í þá veru að því er varðar stjórn eða skipun stjórnar, þ.e. að ætla í raun viðkomandi ráðherra að tilnefna tvo af þremur stjórnarmönnum þó með óbeinum hætti sé þar sem er formaður samvinnunefndar norðurslóða. Ég skil ekki fyllilega þær ástæður sem liggja til þess að sú breyting er lögð til í ljósi þess að formaður nefndar hefur auðvitað alltaf mikið að segja í þriggja manna stjórn. Mér hefði fundist út af fyrir sig eðlilegt að samvinnunefndin hefði svigrúm til þess að tilnefna tvo af þremur stjórnarmönnum en ráðherra hefði þar trygg ítök með því að tilnefna formann samvinnunefndarinnar svo sem ákveðið er samkvæmt 5. gr. frv. Ég gerði ekki ágreining um þetta efni á lokastigi afgreiðslu til þess að samstaða gæti verið sem best um afgreiðslu þessa máls sem hefur fengið góðan byr frá því að Alþingi samþykkti ályktun um að koma þessari stofnun á fót, samhljóða að mig minnir þegar hún var afgreidd hér frá Alþingi, og margir hafa lagt gott til þessa málefnis og þeirra fyrirætlana að koma upp þessari nýju stofnun á Akureyri. Von mín er sú að hún fái áfram þann stuðning sem fram hefur komið á undirbúningsstigi þannig að af henni megi hljótast það sem tillögumenn vænta að verði, að hún verði grundvöllur og sameiningartákn til átaka, nýrra átaka á sviði rannsókna að því er varðar norðurslóðir, bæði að því er varðar beinar rannsóknir á Íslandi en ekki síður því að tengja okkur með traustari hætti við alþjóðlega starfsemi sem fram fer á þessu mikilvæga sviði. Eins og vikið er að í nál. er það hugur umhvn. og hefur alltaf verið, það kemur raunar fram í greinargerð með frv. eins og það var lagt fram og þáltill. á sínum tíma, að litið yrði á málefnið breitt í fræðilegum skilningi þannig að hér væri ekki eingöngu um að ræða umhverfisstofnun eða umhverfisverndarstofnun í þröngri merkingu, heldur væri á hennar vegum horft til sem flestra þátta að því er varðar rannsóknir og athugun mála sem varða norðursvæðið, norðurslóðir. Verður þar eðlilega einna fyrst fyrir að hugsa til þátta eins og mannfræði þar sem valið hefur verið að tengja nafn þessarar stofnunar við nafn mannfræðingsins Vilhjálms Stefánssonar.

Ég vil fyrir mitt leyti þakka fyrir samstarf um þetta mál í umhvn. og vona að það fái hér gott og heilsteypt brautargengi og síðan nái þessi stofnun að þróast og eflast í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af fyrstu sporum hennar. Það er ljóst að þar er ekki lagt upp með mikið fjármagn í byrjun en verkefni og þróun mála hjá þessari stofnun hlýtur að verða ráðandi um það hvers hún verður megnug og hvað af henni sprettur í framtíðinni.