Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:40:12 (6092)

1997-05-12 11:40:12# 121. lþ. 121.9 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:40]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að taka undir með hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og lýsa ánægju minni með að málið skuli vera komið hér til 2. umr. og stefna í það að þingið afgreiði frv. og geri það að lögum að við stofnum Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Ég vil þakka umhvn. hversu skjótlega hún hefur afgreitt málið. Það voru kannski aðeins blikur á lofti um tíma að málinu yrði frestað til næsta þings af ýmsum ástæðum en niðurstaðan varð þessi og ég þakka nefndarmönnum fyrir það.

Varðandi þær breytingar sem hér eru lagðar til þá er það eins og ég hef áður lýst yfir og sagði við afgreiðslu næsta máls á undan að ég vil eiga gott samstarf um það við nefndirnar hvernig þær taka á þessum málum og hef ekki athugasemdir við brtt. umhvn. sem hér eru lagðar til. Ég styð þær að sjálfsögðu. Ég tel að ástæða sé til að óska hv. 4. þm. Austurl. til hamingju með að málið sé á svo góðum rekspöl í gegnum hv. Alþingi vegna hans frumkvæðis og forsögu í þessu máli. Ég ítreka að ég bind miklar vonir við að þessi stofnun geti orðið til þess að styrkja okkur á alþjóðlegum vettvangi, í alþjóðlegu samstarfi varðandi málefni norðurslóða auðvitað fyrst og fremst, en einnig að vekja athygli á því að við höfum vilja til að taka á málum af þessu tagi og veita þeim verulega athygli og brautargengi. Ég trúi því að stofnuninni eigi eftir að vaxa fiskur um hrygg eins og hv. 4. þm. Austurl. sagði efnislega. Einhvers staðar segir: mjór er mikils vísir. Og þó að ekki sé farið geyst af stað og háreist þá er þó þetta, að koma þessu á laggirnar og gera það eins og lagt er upp, stórt skref sem ég tel að sé ekki lítils virði.

Út af því sem ég nefndi áðan að hugsanlega hefði verið óljóst hvort nefndin næði að afgreiða málið núna þá stafaði það kannski m.a. af vinnu sem er í gangi í umhvrn. þar sem fjallað er um starfsemi stofnana sem tendgar eru þeim verkefnum sem eiga að falla undir þessa stofnun, þó að það sé meira á innlendum vettvangi sem þær stofnanir starfa, eins og þær sem nú eru starfræktar á Akureyri eða á Norðurlandi og fjalla um málefni sem varða landið allt, eins og veiðistjóraembættið, og málefni sem eru mjög staðbundin á því svæði eins og rannsóknastofnunin við Mývatn og lögum um Mývatn og Laxársvæðið. Í umhvrn. er vinna í gangi þar sem er verið að fara yfir þessa þætti en þar liggja ekki fyrir neinar ákveðnar línur um hvernig að málum verður staðið og engin niðurstaða um að breytingar verði gerðar á. Ég fagna þess vegna því að menn skyldu ná saman um að veita þessu frv. brautargengi án tillits til þess en get út af fyrir sig tekið undir það sem sagt er í nál. frá hv. umhvn. að ekki sé óeðlilegt að könnuð verði tengsl þessarar nýju stofnunar við aðrar stofnanir sem starfa á þessu sviði og ekki síst á Akureyri þar sem þessari stofnun er ætlað að starfa.

Ég þakka aftur þeim sem staðið hafa að máli þessu og veitt því brautargengi fyrir þeirra ágæta verkefni og starf.