Varðveisla ósnortinna víðerna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:53:19 (6096)

1997-05-12 11:53:19# 121. lþ. 121.10 fundur 27. mál: #A varðveisla ósnortinna víðerna# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er um aldarfjórðungur liðinn síðan þeirri hugsun var hreyft á vettvangi náttúruverndaraðila, eða á fyrsta náttúruverndarþinginu sem haldið var, að það þyrfti að huga að verndun ósnortinna víðerna á Íslandi og ég held að þetta hugtak hafi komið fram þar. Og það er nú ekki lengra komið en þetta og hafa þó komið fram tillögur um það öðru hvoru í tengslum við atrennur að endurskoðun á löggjöf um náttúruvernd sem sett voru 1971 en breytt á síðasta þingi að hluta til, að vísu í formi nýrrar löggjafar, en margt var óunnið í því efni. Í aðdraganda þess máls, m.a. í stjórnskipaðri nefnd 1992/1993 eða á þeim árum sem þáv. umhvrh. setti niður til þess að endurskoða lög um náttúruvernd, var þessu máli hreyft, að setja inn nýja skilgreiningu varðandi friðlýsingar þar sem hugtakið ósnortið víðerni væri fest í lög sem friðlýsingarsvæði. Sem sagt ný skilgreining, nýtt form friðlýsingar, með sérstökum ákvæðum. Ég hef metið það svo að það færi best á því að fella slík verndarákvæði inn í löggjöf um náttúruvernd, og vænti þess að þannig verði á máli haldið nú þegar unnið er að frekari endurskoðun náttúruverndarlaga, að fyrir því verði séð að inn í þá löggjöf komi þau ákvæði sem marki þessu hugtaki, sem hér er verið að þoka áfram með samþykkt þessarar tillögu, sess innan friðlýsingarramma endurskoðaðrar náttúruverndarlöggjafar. Og þá kemur spurningin um það sem þessi tillaga svarar ekki heldur vísar til. Hvað er það sem menn hafa þarna í huga? Hvað er nýtt umfram þær heimildir sem eru um friðlýsingar þjóðgarða, mörkun friðlanda, sem getur verið mjög sveigjanleg að því reglur varðar samkvæmt núgildandi löggjöf, fólkvanga og annað sem menn ætla að ná utan um með þessu hugtaki? Í mínum huga er það svo að ég tel að ef vit á að vera í því að marka þessu hugtaki sess í löggjöf, sem ég styð að verði færst í fang, þá verði um strangara ákvæði að ræða heldur en er varðandi aðrar friðlýsingar að því er snertir mannleg umsvif og mannvirkjagerð, og í rauninni þurfi þá að taka þannig á máli að slíkt svæði sé algerlega tekið frá varðandi hvers kyns röskun og náttúran ein látin um að vinna verkið. Þannig er í aðalatriðum séð farið með þetta mál að ég best veit í bandarískri löggjöf, þar sem þetta á uppruna sinn í Wilderness Act hinum bandaríska, sem hefur verið beitt þar á stór svæði þar sem einmitt eru uppi mjög ströng skilyrði í þessa veru, að svæði sé ósnortið af mannanna verkum, af mannvirkjum, og menn fái þar aðgang til þess að ferðast þar með heldur frumstæðum hætti eins gjarnan er kallað nú á dögum, þ.e. menn geti ferðast fyrst og fremst gangandi um viðkomandi svæði með það sem til þarf til slíkra ferðalaga, geti spreytt sig þannig --- maður í samskiptum við náttúruna eins og hún er, án sérstakrar aðstöðu, og fyrst og fremst og eingöngu þá fótgangandi.

Við eigum, virðulegur forseti, tiltölulega stórt land miðað við íbúafjölda en við erum því miður að ráðstafa þessu landi af lítilli forsjálni í mörgum greinum, þar á meðal okkar stóra óbyggða svæði, miðhálendi Íslands. Það er afskaplega brýnt verkefni og vonandi leggur það starf sem nú er unnið að í sambandi við skipulag miðhálendis landsins nokkuð inn í þá stefnumótun sem þarf að verða, að taka þar frá stór svæði sem verði haldið utan við röskun af mannanna völdum og þar eru mjög stór svæði enn sem hægt er að fella undir það hugtak sem hér er um að ræða. En þá þurfa menn auðvitað að vera reiðubúnir að taka ákvarðanir þar að lútandi. Þar er hægt að nefna dæmi. Það verður ekki farið langt út í þá sálma hér og nú, virðulegur forseti, af minni hálfu en ég nefni sem dæmi svæði sem sjónir landsmanna hafa beinst meira að á undanförnum mánuðum heldur en ýmsum öðrum svæðum í óbyggðum, þar sem er vestanverður Vatnajökull með aðliggjandi svæðum. Það svæði sem er næst miðju þess sem kallað hefur verið ,,heiti reiturinn``, kannski léleg þýðing úr ensku á hot spot, sem skýrir jarðfræðilega tilvist Íslands og hefur lyft landinu og hafið landið úr sæ og sér til þess að það er á floti, að það er ofan sjávar. Þarna er um að ræða gífurlega fjölbreytt svæði en jafnframt með stórbrotinni náttúru og gífurlegum kröftum sem eru þar í gangi í sambandi við landmótun, bæði eldfjöll, jöklar og jökulvötn sem frá jöklum falla.

[12:00]

Þarna er auðvitað um að ræða gífurlega fjölbreytt svæði en jafnframt með stórbrotinni náttúru og gífurlegum kröftum sem eru þar í gangi í sambandi við landmótun, bæði eldfjöll og jöklar og jökulvötn sem frá jöklum falla. Menn eru því miður farnir að ganga óskynsamlega á þetta svæði, eins og ég hef ítrekað vakið athygli á hér á undanförnum mánuðum og árum, með því að taka upp mannvirkjagerð þar í formi vatnsmiðlunar innan þess ramma sem æskilegt væri að draga um þetta ósnortna víðerni, ef svo má segja, í hjarta Íslands. Þá koma í hug orð Jóns Helgasonar: ,,Lands míns titrandi hjarta`` í kvæðinu Við Tungnaá, þar sem um er að ræða eitt af hinum ólmandi jökulvötnum sem vissulega hafa verið beisluð að hluta og er verið að seilast enn lengra í sambandi við þá vatnsmiðlun sem ég nefndi. Menn þurfa því að hraða för í þessu sambandi. Ég er sannfærður um að Hágöngumiðlun hefði ekki verið á dagskrá ef menn hefðu verið komnir lengra með þetta mál og fyrr. Þá hefðu menn áttað sig á því að þarna eru mörk sem við þurfum að virða. Þarna er rammi sem við þurfum að marka.

En hin ósnortnu víðerni liggja víðar og eru meiri. Sum liggja þegar innan afmarkaðra verndarsvæða, friðlanda og þjóðgarða, m.a. liggur hluti af því svæði sem ég var hér að vísa til innan Skaftafellsþjóðgarðs sem nær norður fyrir Grímsvötn og er þannig undir friðlýsingu. Engu að síður þarf að beita þessari hugsun einnig á þau svæði sem friðlýst eru með ákveðnum heimildum um inngrip mannsins af ýmsum toga.

Þessi svæði sem við getum haldið utan t.d. vegalagningar og inngripa í formi mannvirkjagerðar eru þegar grannt er skoðað ekki eins víða og menn gætu haldið. Menn eru komnir býsna langt í því að raska miðhálendi landsins skipulagslaust að því er varðar umferð og vegagerð og slóðagerð og þarna þurfum við fyrr en seinna að marka stefnu um að taka frá og halda utan við slíka vélknúða umferð hvaða nafni sem nefnist og ætla manninum samskipti við náttúruna ósnortna og mótaða af þeim öflum sem í henni búa.

Lónsöræfi, sem svo eru kölluð, Stafafellsfjöll, eru dæmi um svona svæði þar sem menn hafa enn möguleika og þar sem stefnan er að halda vegagerð að mestu utan svæðis. Þau eru mörg sem betur fer sem þurfa að koma til athugunar í þessu sambandi. Ég vona að sá starfshópur sem hér er lagt til samkvæmt tillögunni að settur verði á laggirnar vinni það hratt að sínu verki að þeir sem vinna að endurskoðun laga um náttúruvernd fái afurðina í hendur þannig að hægt verði að fella þetta saman í löggjöf. Ef ekki kemur vissulega til greina að setja sérlög en best færi á því og skynsamlegast væri að fella það inn í endurskoðaða löggjöf um náttúruvernd.