Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 12:07:34 (6098)

1997-05-12 12:07:34# 121. lþ. 121.20 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[12:07]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. allshn. skrifa ég undir það með fyrirvara. Fyrirvari minn er að hluta til skýrður í nál. sjálfu og tekur til samkomulags íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Ég tel að þetta samkomulag brjóti að öllum líkindum 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði með tilliti til trúarbragða og að með þessum samningi sé bæði verið að hygla þjóðkirkjunni um ókomna tíð miðað við önnur trúfélög og skylda ríkið til að greiða kirkjunni laun um ókomna tíð og um leið sé verið að koma í veg fyrir frekari þróun á sambandinu milli ríkis og kirkju. Því leggjum við í minni hlutanum til brtt. á þskj. 1105 þar sem kveðið er á um nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að heildarendurskoðun fari fram á samningi ríkisins og kirkjunnar frá 10. janúar 1997, eigi síðar en að 15 árum liðnum.

Það má deila um margt í þessum samningi sem rekja má allt til ársins 1907 þar sem skipt er á kirkjujörðum og launum til presta og starfsmanna biskupsstofu. Ef frv. þetta verður að lögum í þeim búningi sem meiri hlutinn gengur frá því þá er búið að gera kirkjuna að sjálfstæðri eignhelgi, samanber 2. grein, og því má líta svo á að þau árlegu laun sem koma í hlut kirkjunnar samkvæmt þessu frv. séu orðin eign kirkjunnar og verði ekki skert án bóta, samanber 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. kirkjumrh. sem hér situr í salnum hvort það er réttur skilningur að hans mati að þar sem í 2. gr. er talað um að kirkjan hafi sjálfstæða eignhelgi þá sé sá skilningur réttur að þau laun sem kirkjan fær samkvæmt þessum samningi eða andvirði þeirra sé þar með orðið eign kirkjunnar og þau verði ekki skert nema til komi bætur, samanber 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarréttinn.

Ég er þeirrar skoðunar að mun eðlilegra væri að tryggja framlög til þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga með hækkuðum sóknargjöldum og þar með væri einnig tryggt að ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar væri ekki brotið svo og mannréttindasáttmáli Evrópu. Það kæmi mér ekki á óvart að mögulegt væri að kæra framkvæmd þessara laga til Mannréttindadómstóls Evrópu en um slíkt skal ekkert fullyrt hér.

Hitt meginatriðið sem ég hef fyrirvara um er að prestar séu embættismenn ríkisins og að ráðning þeirra verði í svipuðum farvegi og annarra embættismanna samanber 39. gr. frv. Í Svíþjóð, sem hefur verið að stíga hægfara skref til aðskilnaðar ríkis og kirkju, eru prestar embættismenn kirkjunnar. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt fyrst ríkið borgar launin að prestar séu embættismenn ríkisins en ég tel það ekki í takt við það sjálfstæði kirkjunnar sem hér er stefnt að og ég er sammála. Og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að það stuðli að eðlilegum starfsfriði innan sókna landsins og söfnuða að mögulegt sé að víkja prestum frá á fimm ára fresti. Ég tel þó að sú lending sem náðist í brtt. nefndarinnar við 39. gr. sé eðlileg miðað við það að prestar séu embættismenn ríkisins.

Herra forseti. Yfirferðin yfir þetta umfangsmikla frv. í allshn. var mjög vönduð og ég tel að frv. hafi breyst til batnaðar með brtt. nefndarinnar. M.a. er hlutur leikmanna gerður meiri en áður með brtt. sem varðar leikmannaráð þjóðkirkjunnar en frv. gerir auk þess ráð fyrir að leikmenn hafi meiri hluta á kirkjuþingi sem verður mjög valdamikil stofnun ef þetta frv. verður að lögum. Og eins og væntanlega kemur fram hér á eftir þá get ég tekið undir þá skoðun að hún sé full fámenn.

Það kom jafnframt fram við yfirferðina í allshn. að það eru töluverð átök um frv. innan kirkjunnar meðal kirkjunnar manna og milli kirkjunnar og sóknar og það er væntanlega skýringin á því að það frv. sem hér er um að ræða er mun ítarlegra en til stóð því það hefur ávallt staðið til að setja rammalöggjöf. En það er í raun og veru alveg með ólíkindum hvað verið er að festa í lög mörg smáatriði um innri mál kirkjunnar þó svo að stefnt sé að því, og ég er sammála þeirri stefnu, að kirkjan fái meira sjálfstæði um sín innri mál.

Virðulegi forseti. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að sátt náist meðal þjóðarinnar og innan kirkjunnar um málefni þjóðkirkjunnar en eins og er þá virðist þarna, eins og kannski í fleiri stofnunum, eiga sér stað töluverð átök. Nú eru um 10% þjóðarinnar í öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni og á það hefur verið bent að það stríði gegn trúfrelsi að hygla einu trúfélagi umfram önnur. Það hefur líka verið bent á að fyrirliggjandi eru skoðanakannanir sem benda til að meiri hluti þjóðarinnar sé á því að það beri að skilja betur á milli ríkis og kirkju.

Með þessu frv. er að mínu mati verið að stíga tvö illsættanleg skref í þá átt, þ.e. annars vegar er kirkjunni fært aukið sjálfstæði um sín innri mál enda frv. samið af kirkuþingi upphaflega. En hins vegar er verið að festa í sessi að ríkið greiði laun og kostnað af þjóðkirkjunni og mjög umfram kostnað við önnur trúfélög á þeirri forsendu að hér er um þjóðkirkju að ræða. En ég fagna því að ákvæðinu um hvaða skyldur ríkið hefur gagnvart kirkjunni var breytt og það sé í samræmi við stjórnarskrána.

Mín skoðun er sú að það væri kirkjunni sjálfri til góðs að skilja sig betur frá ríkinu og því sé það mjög óásættanlegt að ekki standi til að endurskoða í heild það samkomulag sem ríkið hefur gert við kirkjuna því þessi mál verða að geta þróast áfram. Því höfum við, minni hlutinn, lagt hér fram brtt. Og ég vil áður en ég yfirgef þessa umræðu ítreka fyrirspurn mína til kirkjumrh. um skilninginn á 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.